148. löggjafarþing — 27. fundur,  21. feb. 2018.

löggæslumál.

[16:04]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég vil gera að umtalsefni stöðu löggæslumála á Suðurnesjum. Árið 2015 fóru um Leifsstöð tæpar fimm milljónir farþega, árið 2017 fóru tæplega níu milljónir farþega um stöðina og spár gera ráð fyrir því að á þessu ári fari tæplega 11 milljónir farþega um flugstöðina. Hér er um verulega fjölgun að ræða á skömmum tíma.

Ef við skoðum í þessu samhengi þróun ársverka á Keflavíkurflugvelli má sjá að fyrirtæki á borð við Isavia og önnur farþegaþjónustufyrirtæki hafa fjölgað starfsmönnum sínum verulega. Þannig voru ársverk Isavia og flugþjónustufyrirtækja 540 árið 2015, en rúmlega 1.100 árið 2017. Ársverk flugstöðvardeildar lögreglustjórans á Suðurnesjum voru hins vegar einungis 64 árið 2017. Meiri hluti þeirra eru landamæraverðir en ekki lögreglumenn. Á sama tíma hefur fólksfjölgun á Suðurnesjum verið fordæmalaus; á síðustu sex árum hefur íbúum á Suðurnesjum fjölgað um rúm 22%. Fjöldi erlendra ríkisborgara þrefaldast og fjölgun hælisleitenda margfaldast. Fjöldi erlendra íbúa á svæðinu er nú 20%.

Allt hefur þetta áhrif á hinn almenna borgara þegar kemur að öryggi og löggæslu. Hinn almenni borgari á Suðurnesjum á ekki að þurfa að líða fyrir það þegar kemur að löggæslumálum að hingað til lands streymi ferðamenn, erlent vinnuafl og hælisleitendur. Þessar aðstæður kalla á aukna löggæslu, bæði í almennri deild og rannsóknardeild. Ríkisvaldið verður að bregðast við þessu.

Ársverk lögreglumanna sem sinna almennri löggæslu við embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum voru 46 árið 2007. Árið 2017 eru þau 40. Það hefur sem sagt fækkað ársverkum lögreglumanna í almennri deild lögreglunnar á Suðurnesjum.

Hægt er að fjölga lögreglumönnum á Suðurnesjum strax. Það er hægt með því að láta Isavia borga hluta af löggæslu í Leifsstöð. Tekjur Isavia voru 33 milljarðar árið 2016. Var það 27% aukning frá fyrra ári. Það er ekkert (Forseti hringir.) óeðlilegt við það að Isavia taki þátt í kostnaði við löggæslu í Leifsstöð. Það væri gaman að heyra álit hæstv. dómsmálaráðherra á því.