148. löggjafarþing — 28. fundur,  22. feb. 2018.

málefni hinsegin fólks.

[11:02]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn og segi: Já, ríkisstjórnin tekur alvarlega þau skilaboð sem eru að berast varðandi stöðu hinsegin fólks á Íslandi og þá staðreynd að Ísland virðist vera að dragast aftur úr þegar kemur að þessum málum, jafnvel þó að við segjum á tyllidögum og teljum okkur trú um að svo sé ekki.

Þingmaður spyr hvað sé að gerast, hvað ráðherra og ríkisstjórn séu að gera. Það eru væntanleg inn í þingið m.a. tvö lagafrumvörp um mismunun, bæði mismunun í samfélaginu og mismunun á vinnumarkaði. Þau frumvörp geta vonandi komið inn í þingið í næstu viku ef allt gengur upp.

Það er líka gaman frá því að segja að ég var að koma af fundi í ráðherranefnd um jafnréttismál þar sem m.a. var rætt nákvæmlega þetta og með hvaða hætti við ætluðum að styrkja stöðu Íslands og þessara hópa. Það er m.a. í vinnslu frumvarp um kynrænt sjálfræði sem er unnið í samstarfi milli félagsmálaráðherra og heilbrigðisráðherra og í góðu samstarfi við hagsmunaaðila. Ekki er ósennilegt að það frumvarp geti komið á næsta þingi.

Síðan er líka í skoðun að efla Samtökin '78 og að ríkisstjórnin hefji kraftmeira samstarf við þau þegar kemur að þessum málaflokkum. Ég á von á því að ræða það við Samtökin '78 innan tíðar hvernig við getum hagað því samstarfi. Ég tek undir með hv. þingmanni, það er gríðarlega mikilvægt að við séum í fremstu röð, ekki bara í orði heldur líka á borði. Við gerum það stundum í orði en það er greinilega þannig að við erum það ekki alveg á borði. Þar þurfum við að bæta okkur. Það ætlar ríkisstjórnin svo sannarlega að gera með markvissum aðgerðum.