148. löggjafarþing — 30. fundur,  27. feb. 2018.

rafræn birting álagningarskrár.

177. mál
[14:14]
Horfa

Flm. (Andrés Ingi Jónsson) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um rafræna birtingu álagningarskrár. Ásamt þeim sem hér stendur eru flutningsmenn Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Ólafur Þór Gunnarsson, Rósa Björk Brynjólfsdóttir og Steinunn Þóra Árnadóttir.

Tillagan gengur út á aukið gagnsæi, eins og margar góðar tillögur gera, en hún gengur út á að auka gagnsæi sem nú þegar er til staðar og hefur verið lengur en meðalgagnsæis-mómentin á Íslandi. Hér erum við að tala um birtingu árlegrar álagningarskrár ríkisskattstjóra, en sá háttur hefur verið hafður á áratugum saman, og byggir í dag á lagagrunni sem er jafngamall þeim sem hér stendur upp á ár, að í tvær vikur á ári liggi frammi hjá skattstjóra álagningarskrá allra þeirra sem greiða skatt hér á landi.

Tillagan er svohljóðandi:

„Alþingi ályktar að fela fjármála- og efnahagsráðherra að hlutast til um rafræna birtingu árlegrar álagningarskrár skattyfirvalda um alla álagða skatta sem komi í stað núverandi skrár og verði aðgengileg allt árið uns ný skrá er birt. Ráðherra leggi fyrir Alþingi frumvarp þessa efnis fyrir lok ársins 2018.“

Eina breytingin er í raun sú að í stað þess að ríkisskattstjóri prenti einu sinni á ári hnausþykka gormabók og láti liggja frammi uppi á Laugavegi, sé brugðist við þeirri staðreynd að miðlun upplýsinga hefur þróast dálítið frá árinu 1979 þegar þessi lagagrunnur varð til. Í dag myndi það ekki beinlínis kallast að liggja frammi til sýnis á hentugum stað að þessi gormabók sé uppi á Laugavegi heldur væri nær að hún væri aðgengileg á rafrænu formi á netinu þannig að allir gætu nálgast hana.

Það rímar líka ágætlega við þá staðreynd að skattskil eru í dag því sem næst öll orðin rafræn. Íslendingar nálgast þessi mál í gegnum tölvu.

Ísland er ekki eina landið sem er með þetta mikið gagnsæi á álagningu opinberra gjalda. Þetta er nálgun sem er sameiginleg flestum Norðurlöndunum, utan Danmerkur, og endurspeglar að mínu mati þann sameiginlega skilning okkar að skattar séu einfaldlega gjaldið sem við greiðum fyrir að taka þátt í siðuðu samfélagi, velferðarsamfélagi, fyrir að eiga hér það samfélag sem við byggjum. Það er kannski engin tilviljun að þau lönd sem ganga hvað lengst í þessum málum eru jafnframt þau lönd heims sem eru með hvað öflugast velferðarkerfi. Það gagnsæi sem verið hefur við lýði áratugum saman hefur byggt upp félagslegt traust, við treystum því að hér leggi allir sitt af mörkum eftir getu, til þess síðan að við getum uppskorið eftir þörfum, í menntakerfinu, heilbrigðiskerfinu, úr því sameiginlega félagslega stuðningsneti sem við höfum byggt fyrir þessa skatta.

Það að efla birtingu þessara upplýsinga væri að mínu mati einungis til þess að efla það traust sem ríkir í samfélaginu í garð félagslega stuðningsnetsins.

Eins og fram kemur í greinargerð með tillögunni hafa Svíar birt álagningarskrár sínar opinberlega frá árinu 1903. Þar í landi hefur rafræn birting verið tíðkuð um nokkurt skeið. Finnar hafa frá árinu 2010 gert fólki kleift að nálgast sambærilegar upplýsingar á rafrænu formi og Norðmenn, þar sem skattskrá hefur verið opinber frá árinu 1863, hafa undanfarin 14 ár birt upplýsingarnar rafrænt. Sú birting hefur þróast dálítið í áranna rás. Ég tel að eðlilegt væri til að líta til þess við útfærslu ráðuneytisins á þessu máli. Það er kannski ekki augljóst fyrr en á reynir hvað það er nákvæmlega sem best er að birta til þess að gagnsæið sé sem mest og til þess að upplýsingagildi þess sem birt er sé eins mikið og verða má. Þegar ég segi upplýsingagildi gildir það í báðar áttir vegna þess að eins og þessu háttar hér á landi í dag eru birt ágætistekjublöð einu sinni á ári. Hér held ég á Frjálsri verslun frá síðasta ári þar sem ritstjóri þess blaðs hefur valið 3.725 einstaklinga til þess að birta upplýsingar um. Það eru þá einstaklingar sem eru oft og tíðum valdir af handahófskenndum ástæðum til að vera í kastljósinu. Þar að auki eru tölurnar sem birtast stundum byggðar á áætlun skattstjóra um tekjur ársins. Þær birtast ekki með sanngjörnum hætti gagnvart þeim sem hafa tekjur af öðru en hefðbundinni launavinnu þannig að fjármagnstekjur eru til að mynda ekki í tölum þeim sem Frjáls verslun byggir á. Þegar verið er að skoða þessa rafrænu birtingu væri eðlilegt að greina hvernig best væri að þróa upplýsingarnar og hvaða upplýsingar eru birtar til þess að þær gefi sem skýrasta og gleggsta mynd af raunverulegri stöðu framteljanda í hverju tilviki.

Það verður að segjast eins og er að mér hefði þótt gaman að geta mælt fyrir þessu máli fyrir kosningar. Þá hefði ég getað beðið um að því yrði vísað til þáverandi hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra, sem var jafnframt útgefandi Tekjublaðs Frjálsrar verslunar um langt áraskeið. En maður ræður víst ekki öllu. Ég vænti þess að málið fái góða meðferð hjá frænda fyrrverandi ráðherrans í fjármála- og efnahagsráðuneytinu.

Svo langar mig rétt að lokum að nefna að auk þess að vera það verkfæri sem opnar álagningarskrár áttu upphaflega að vera, einhvers konar aðhaldsverkfæri fyrir almenning til að fylgjast með náunganum eða hvað það er til að koma í veg fyrir skattundanskot og skattsvik, gæti aukin birting þessara upplýsinga verið öflugt verkfæri í baráttunni gegn launaleynd og því misrétti sem oft birtist í henni gagnvart launamun kynjanna. Með einhvers konar skýrum ramma varðandi úrvinnslu þessara upplýsinga væri hægt að nýta þær til hluta sem þær hafa ekki nýst til í dag, fastar í þessum útprentuðu gormamöppum hjá ríkisskattstjóra.

Ég hef lokið framsögu minni og fer væntanlega fram á að málið fari að lokinni 1. umr. til efnahags- og viðskiptanefndar til afgreiðslu.