148. löggjafarþing — 41. fundur,  20. mars 2018.

störf þingsins.

[13:55]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegi forseti. Í síðustu viku blöskraði mér alveg óskaplega. Ég varð hrikalega sár. Ég spyr: Hvar er ríkisstjórnin? Hvernig er hægt að útskrifa eldri borgara af sjúkrahúsum og senda þá heim í svelti? Hvernig er hægt að samþykkja að 11 einstaklingar sem útskrifaðir eru af sjúkrahúsi fái undir 900 hitaeiningum í fæði? Sá sem verst stóð fékk 200 hitaeiningar, sem er algjört svelti. Það sem var til í ísskápnum hjá viðkomandi einstaklingi var maltdós og lýsisflaska. Að það skuli viðgangast — vegna þess að þetta er ekkert annað en klárt brot á stjórnarskránni. Og að það skuli engin rauð ljós blikka og ekkert skuli vera gert til þess að koma þessum málum í lag er alveg stórfurðulegt.

Þetta á ekki bara við um eldri borgara þessa lands, heldur einnig öryrkja sem búa einir og hafa rétt fyrir húsaleigunni og svelta þess á milli.

Ég fagna því að sessunautur minn, hv. þm. Ásmundur Friðriksson, kom með skilaboð frá Sjálfstæðismönnum um að króna á móti krónu skerðingin ætti að fara. Það er kominn tími til. Króna á móti krónu skerðingin átti aldrei að viðgangast. Það er skömm þessa þings að ekki skuli löngu vera búið að taka hana í burtu vegna þess að hún hefur áhrif á svo margt. Hún heldur fólki í fátækt, fólk á ekki fyrir mat. Þess vegna er sú staða komin upp að fólk úti í samfélaginu sveltur.

Ég spyr: Ætlum við að láta það viðgangast — ætlum við að segja að það sé í lagi að fólk svelti? Er það í lagi að eiga bara maltdós og lýsisflösku í ísskápnum? Hvar er eftirlit okkar? Og hvar er eftirlit heilbrigðisráðuneytisins?

Ég geri kröfu um að við tökum á þessu máli og komum því í lag vegna þess að það er ekki í lagi. Þó að við höfum það gott þurfum við ekki að svelta aðra.