148. löggjafarþing — 41. fundur,  20. mars 2018.

fjarskipti.

390. mál
[17:19]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég biðst afsökunar að koma aðeins inn á annað mál í umræðunni, en ég sá ákveðið samasemmerki á milli þeirra mála og kannski hefur umræðan um það út frá þessu sýnt okkur ákveðin vandamál sem við höfum gengið í, ákveðna þröskulda sem við höfum rekist á, með t.d. reikimálin. En hv. þingmaður lýsti því einmitt að þegar erlendir ferðamenn koma hingað flakka þeir um, ekkert mál, á meðan við hér á Íslandi getum það ekki. Það væri mjög eðlilegt að við gætum flakkað jafn auðveldlega og þeir á þann hátt til þess að tryggja í rauninni samband. Þar eru flækjur. Ég tek alveg undir það.

Alla jafna ættum við ekki að þurfa að leggja margfalt samskiptakerfi. Það er það sem þetta snýst um í rauninni, að búa ekki til þannig kerfi að við offjárfestum, eins og hv. þingmaður nefndi, heldur að við gerum þetta á hagkvæman hátt í rauninni. Það er það sem ég er að reyna að vísa í um þessi mál varðandi höfundaréttinn, netið og reikið. Það eru möguleikar þar til að gera hlutina á hagkvæmari og skilvirkari hátt fyrir neytandann og í rauninni fyrir þjónustuveitendurna líka.

Það er það sem ég er að reyna að segja með þessari umræðu, að slá þessum þremur atriðum saman og missa ekki í rauninni af þeim stóru tækifærum sem við höfum til að gera hlutina betur þrátt fyrir þá þröskulda sem við höfum rekist á. Og læra þá alla vega af þeim og halda ekki áfram á sömu braut, þessu margfalda kerfi sem við höfum kannski núna.