148. löggjafarþing — 42. fundur,  21. mars 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[16:01]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (Flf) (andsvar):

Herra forseti. Það hefði verið til mikilla bóta, og hefði kannski mátt telja það eðlileg vinnubrögð í málinu, að stefnan lægi fyrir á grundvelli ólíkra sviðsmynda um hugsanlega framvindu í efnahagsmálum. Það er ekki nema sjálfsagt og eðlilegt.

Ég vil leyfa mér að vekja athygli á því sem segir á bls. 19 í áliti fjármálaráðs, um að fjármálaráð hafi í fyrri álitum sínum kallað eftir sviðsmyndagreiningu.

Og áfram segir að fjármálaráð telji ekki nægjanlegt að greina frá því að fráviksspá hafi verið framkvæmd, það þurfi að gera grein fyrir þeim forsendum sem lagðar séu til grundvallar sviðsmyndum og sýna með skýrum hætti hver áhrif ólíkra sviðsmynda eru, til að mynda við afkomuna og samspil þeirra við stjórn opinberra fjármála og þau markmið sem stefnan boðar.

Herra forseti. Ítrekuð ummæli um að í fyrri álitum hafi verið bent á eitt og annað eru auðvitað ákveðin gagnrýni af hálfu fjármálaráðs, sem verður ekki misskilin, á það að ábendingar þess á fyrri stigum hafi ósköp einfaldlega verið hunsaðar.