148. löggjafarþing — 43. fundur,  22. mars 2018.

tollgæslumál.

[11:52]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (Flf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka málshefjanda hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni fyrir að vekja máls á því þarfa efni sem starfsemi tollgæslu er. Ég ætla að koma að nokkrum atriðum í ræðu minni, ég veit ekki hvort ég hef tíma til að impra á öllu. En fyrst ber að nefna samvinnu lögreglu og tollgæslu. Gott og vel. Samvinnan er góð á Austurlandi, heyri ég á þingmönnum. Er eitthvert sérstakt tilefni til að hrósa því? Er hún ekki nógu góð annars staðar? Ég hefði haldið að það væri sjálfsagt mál. Hvernig var það hér áður þegar tollgæslan var undir lögreglustjóra? Það eru ekki mörg ár síðan. Hvernig var það þá? Þurfti þá að efna til einhverrar sérstakrar samvinnu? Ég er ekki að mælast til að það verði þannig aftur, en ég spyr bara: Er ekki í lagi að þetta sé hugsanlega undir lögreglustjóra úti í hinum dreifðu byggðum? Ég er ekki að tala um Reykjavíkursvæðið. Ég varpa þessum bolta á loft fyrst menn taka svona til orða að hrósa þurfi sérstaklega einhverri samvinnu, hvort ekki sé tími til að snúa til baka að einhverju leyti hvað það varðar ef þetta er sérstakt tilefni til hróss.

Annað sem ég vil tala um er að starfsemi tollgæslu og lögreglu skarast á fjölmarga vegu. Það styður það sem ég var að segja. Auðvitað er það svo, eins og á Keflavíkurflugvelli. Þar var mjög góð samvinna þegar þetta var allt undir einum hatti.

Varðandi tækni til að gegnumlýsa, hæstv. fjármálaráðherra. Hér er talað eins og það sé eitthvað nýtt. Það er ekkert nýtt því að ég man að fyrir mörgum árum síðan var þessi tækni komin til að gegnumlýsa gáma og farartæki. Ég spyr hæstv. fjármálaráðherra: Er það virkilega svo í dag að þetta sé ekki enn þá komið hingað til nota fyrir tollgæsluna? Er það virkilega svo?

Að ráða fólk af atvinnuleysisskrá til að efla innheimtu tollsins. (Forseti hringir.) Ég held að það sé nú ekki svo sniðug hugmynd hjá málshefjanda, vegna þess einfaldlega að hér er um mjög sérhæfð störf að ræða. Ég veit ekki hvort fólk (Forseti hringir.) á atvinnuleysisskrá getur raunverulega kastað sér beint út í þá vinnu svona með skömmum fyrirvara.

(Forseti (JÞÓ): Forseti biðst afsökunar á því að hann byrjaði ekki að hringja fyrr en þingmaður var kominn fimm sekúndur fram yfir ræðutíma, en hann hélt nú samt sem áður áfram í 20 sekúndur eftir það. Forseti vill jafnframt árétta við þingmenn að þeir virði ræðutíma.)