148. löggjafarþing — 43. fundur,  22. mars 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[17:33]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Frú forseti. Við ræðum fjármálastefnu fyrir árin 2018–2022. Ég hef fylgst gaumgæfilega með umræðunni og reynt að átta mig á því hvað það er nákvæmlega sem menn hafa verið að gagnrýna og hvernig menn hafa viljað taka á þeim þáttum sem þeim finnst standa út af. Því miður hefur mér þótt mikið í umræðunni vera um fjármálastefnuna næst á undan þessari, þ.e. fjármálastefnuna sem var lögð fram á árinu 2017, að minnsta kosti hefur mjög mikill tími farið í það að reyna að bera þær saman, en þó í rauninni ekki nógur. Vegna þess að þó að fljótt á litið séu prósentutölurnar tiltölulega lágar gætu menn haldið að það væri andskotann enginn, fyrirgefið, frú forseti, það væri nánast enginn munur á þessum tveimur fjármálastefnum, en það er alrangt því að hann er töluverður.

Munurinn til að mynda á heildarafkomu ríkissjóðs á þeim fimm árum sem fjármálastefnan nær til er 50 milljarðar. Þarna eru á þeim tíma sem stefnan nær til u.þ.b. 50 milljarðar sem gert er ráð fyrir að afkoman verði lakari í þessari fjármálastefnu en hinni. Hvað halda hv. þingmenn að núverandi ríkisstjórn og ríkisstjórnarflokkar séu að hugsa sér að gera með þennan afkomumun? Það hefur þegar komið fram í tölu og umræðum hv. stjórnarþingmanna: Við ætlum að nota þessa peninga til að bæta í innviðina og til að styrkja félagslega kerfið. Það er ekkert flóknara en það.

Svo geta menn ekki haldið því fram í ræðustóli að það sé enginn munur og það sé ekkert að gert því það er alrangt.

Það kemur einnig skýrt fram í þessari fjármálastefnu að verið er að draga úr niðurgreiðslu skulda hins opinbera væntanlega í sama tilgangi, til að hafa borð fyrir báru að taka á þeim þáttum sem hv. þingmenn hafa réttilega nefnt. Það eru vandamál í félagslegum þáttum. Það eru vandamál í því hvað við höfum látið innviðina gjalda kannski of mikið fyrir fjármálahrunið o.s.frv. En á þeim þáttum er einmitt ætlunin að taka með þeim breytingum sem verða á fjármálastefnunni. Það er mjög mikilvægt, hv. þingmenn, að þetta komi fram og skiptir í rauninni grundvallarmáli.

Veikleikarnir í þessari fjármálastefnu eru kannski þeir sem snúa að sveitarfélögunum. Ég held að þar, eðli málsins samkvæmt, sé kannski erfiðara fyrir fjármálaráðuneytið eða ríkið að spá nákvæmlega fyrir um hvernig sveitarfélögin muni standa vegna þess að þar hefur fjármálaráðuneytið, og ríkisvaldið, náttúrlega ekki sömu tök og á fjármálum ríkisins sjálfs. Ég til að mynda leyfi mér að efast um að sveitarfélögin muni sem neinu nemur ná að greiða niður skuldir sínar eins og kemur fram í stefnunni.

Annar þáttur sem hefur réttilega verið nefndur í umræðunni er að þetta er áætlunargerð og hún byggir á spá og spár eru náttúrlega aldrei fullkomnar.

En engu að síður vil ég ítreka, frú forseti, að hér erum við með fjármálastefnu sem er í grundvallaratriðum að horfa til annarra þátta en sú fjármálastefna sem lá fyrir vorið 2017.