148. löggjafarþing — 44. fundur,  23. mars 2018.

kosningar til sveitarstjórna.

40. mál
[15:58]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Bergþóri Ólasyni fyrir svarið. Ég bendi á að það væri sérkennilegt ef við lækkuðum kosningaaldurinn og gæfum 16 ára fólki kjörgengi án þess að breyta líka sjálfræði. Ekki getum við haft það þannig að kjörnir fulltrúar séu ekki fjárráða og sjálfráða þegar þeir setjast á þing eða í sveitarstjórnir. Það hlýtur að fylgja.

En ég skil að hv. þingmaður hafi ekki alveg fastmótaðar skoðanir á því hvar mörkin liggja akkúrat, hvort það eigi að vera 16, 17 eða 18 ára. Ég held að það vefjist fyrir fleirum en hv. þingmanni. Ég tek eftir því að í Skessuhorni, fréttablaði í kjördæmi hans, birtist skoðanakönnun þar sem 407 manns tóku afstöðu til þess hvort rétt væri að lækka kosningaaldurinn. Þar voru 89% andvígir því að gera það með þeim hætti sem við erum hugsanlega að fara að gera hér síðar í dag, en 7% hlynnt. Þannig að það er afgerandi niðurstaða að minnsta kosti í kjördæmi hv. þingmanns.

En ég velti líka fyrir mér: Hefur Miðflokkurinn markað stefnu í þessum málum, þ.e. þegar kemur að hinum borgaralegu réttindum? Með hvaða hætti? Kannski á þetta að vera stígandi eins og sumir hv. þingmenn vilja gera, þ.e. að eðlilegt sé að það sé eitthvert þroskaferli og maður fái ákveðin réttindi og þroskist upp í þau. Ég skil það viðhorf. Ég segi hins vegar: Reynsla mín af 16 ára unglingum er sú að þeir eru miklu þroskaðri en ég var þegar ég var 16 ára. Ég tel að það sé fullkomlega eðlileg og sanngjörn krafa að við vinnum að þessu máli og gerum það af heilindum og að það sé sæmileg sátt og samstaða um það sem við erum að gera en afgreiðum ekki málið í ágreiningi, (Forseti hringir.) sem er versta aðferðin við að breyta kosningalögum og versta aðferð til þess að auka réttindi almennings.