148. löggjafarþing — 44. fundur,  23. mars 2018.

kosningar til sveitarstjórna.

40. mál
[17:36]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir betri ræðu, leyfi ég mér að segja, en ég hef heyrt hér fyrr í dag, alla vega frá þeim sem ekki styðja málið. Hv. þingmaður fór réttilega yfir það að umræðan var alla vega ekki mikil í 1. umr. Einhver umræða varð við 2. umr. þótt það sé miður að hv. þingmaður hafi ekki komist að þá. Svo átti sér stað ansi viðamikil umræða í gær, að vísu ekki að forminu til í 2. umr. heldur um atkvæðagreiðslu, en hún var mjög rík, var mjög þykk. Þingheimur var allur viðstaddur, en það verður til þess að sá hluti málsmeðferðarinnar felur oft í sér bestu rökræðurnar og mestu upplýsingarnar. Það er svolítið kaldhæðnislegt, en stundum virðist það vera þannig. Ég tel að það hafi verið þannig í gær.

Nú skil ég mætavel þegar þingmenn nýta rétt sinn til að taka til máls til að hafa áhrif á dagskrána. Það er til uppnefni yfir það fyrirbæri, það er kallað málþóf. Ég ber fulla virðingu fyrir þeim rétti. Ég hef staðið hér og haldið ræður um mikilvægi þess að hægt sé (Forseti hringir.) að halda málþóf. En ég hef séð það í minni hluta ríkisstjórnar gagnvart ríkisstjórnarflokkum þegar ríkisstjórnin (Forseti hringir.) er að traðka yfir þingið, ekki einfaldlega þegar það er þingminnihluti heldur til þess að vera á móti einhverju sem (Forseti hringir.) ægivald framkvæmdarvaldsins er að setja (Forseti hringir.) yfir löggjafarvaldið. Nú er ég búinn með tímann, en getur hv. þingmaður tekið undir með mér um þetta?

(Forseti (BN): Tíminn var búinn fyrir löngu.)