148. löggjafarþing — 45. fundur,  9. apr. 2018.

dreifing ferðamanna um landið.

[16:58]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Líneik Önnu Sævarsdóttur að hefja þessa umræðu og hæstv. ráðherra fyrir svörin.

Við höfum fylgst með umræðu í fjölmiðlum um ágang ferðamanna á vinsælum ferðamannastöðum um landið og sá ágangur er orðinn svo mikill að í óefni stefnir. Viðkvæm svæði liggja undir skemmdum. Það skiptir miklu máli að dreifa álaginu um landið og öruggar samgöngur eru forsenda þess. Til að jafna samkeppnisstöðu landshluta í ferðaþjónustu og búsetuskilyrði eru alþjóðlegir flugvellir mikilvæg forsenda. Styrking við alþjóðlega flugvelli sem víðast um landið er öflug leið í þeim efnum. Það er líka mikilvægt fyrir aðrar greinar, eins og uppbyggingu fiskeldis og fiskútflutning, en samhliða uppbyggingu alþjóðlegra flugvalla um landið þarf að huga að öðrum samgönguleiðum.

Hlutverk stjórnvalda er að styðja við uppbyggingu ferðaþjónustu um allt land. Þar er vetrarþjónusta mikilvægur þáttur og skiptir máli umferðaröryggi allra vegfarenda sem leið eiga um landið. Með því eykst öryggi á þjóðvegum og er þá verið að horfa á aukinn umferðarþunga og tryggja öruggar samgöngur allt árið. Það þarf líka að auka merkingar og upplýsingar sem ná örugglega til ferðamanna.

Svo er annar punktur. Hér á landi er einn hringvegur skilgreindur á landinu, það er hringvegur 1, en það eru líka landsvæði sem liggja út frá hringveginum sem þarf að leggja meiri áherslu á, t.d. á Vestfjörðum og Snæfellsnesi og víðar. Það þarf að styrkja meginsamgönguleiðir þeirra landsvæða og þyrfti að þjónusta í samræmi við það. Víða á þessum svæðum er finna samgöngumannvirki sem eru flöskuhálsar til að hægt sé að tala um að hringtenging sé greið. Með slíkri skilgreiningu yrði markaðssetning svæðanna miklu auðveldari og markaðssetning er öflug leið til að dreifa ferðamönnum um allt landið.