148. löggjafarþing — 45. fundur,  9. apr. 2018.

dreifing ferðamanna um landið.

[17:10]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegi forseti. Ég þakka Líneik Önnu Sævarsdóttur fyrir þessa umræðu og hæstv. ráðherra fyrir að vera hérna. Ég vil taka aðeins annan pól í þessari umræðu. Við erum að tala um alþjóðaflugvöll á Akureyri og Egilsstöðum. Um daginn gátu þotur ekki lent í Keflavík vegna veðurs. Neyðarástand myndaðist á Akureyrarflugvelli og vélar þurftu að fljúga þangað og einnig á Egilsstaðaflugvöll. Ég spyr: Eigum við ekki að byrja á réttum enda? Eftir því sem mér skilst þá er ástandið þannig á báðum þessum völlum að það vantar dráttarbíl til að draga þotur svo að hægt sé að raða þeim upp. Ef flug hefði verið að koma annars staðar að á þessum sama tíma hefði legið við stórslysi þarna. Eigum við ekki bara að byrja á réttum enda og ganga þannig frá að enginn sé í hættu og hlutirnir séu í lagi? Þarna er um smáaura að ræða.

Ég vil spyrja ráðherra hvort hún sé í sambandi við samgönguráðherra um þessi mál, hvort koma eigi dráttarbíl þarna að til að draga þotur svo að hlutirnir séu í lagi þarna, hvort það sé á dagskrá eða hvort það sé eitthvert aukaatriði.

Við megum ekki gleyma, eins og hér hefur komið fram, að Vestfirðir eru hluti af landinu. Það virðist oft gleymast að ferðamenn þurfa líka að fara þangað. Svo skilst mér að þessi flugþróunarsjóður sé í andstöðu við reglur EFTA og einnig hefur verið talað um reglur ESA um ríkisstyrki í sambandi við þetta mál. Þarna virðist eitthvað stangast á. Ég spyr: Þarf ekki að kanna þetta allt þannig að hlutirnir séu í lagi áður en við förum að dæla ferðamönnum á staðinn?