148. löggjafarþing — 45. fundur,  9. apr. 2018.

einkaleyfi og nýsköpunarvirkni.

356. mál
[17:49]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég þakka aftur fyrir þessa umræðu. Mig langaði að nefna það af því að hv. þingmaður kom aðeins inn á kostnaðinn að gætt hefur ákveðins misskilnings, ekki hjá hv. þingmanni heldur annars staðar frá og í umræðunni, um kostnaðinn. Hann er talaður mjög upp og ýktur. Kostnaður við einkaleyfi á verðmætri þekkingu er auðvitað mjög lítill í samanburði við mögulegan kostnað ef frelsi til athafna skerðist og ef höfð eru í huga tækifærin í tekjuöflun sem slík einkaleyfi gætu veitt. Það er auðvitað ekki hægt að selja eitthvað sem menn eiga ekki. Ég held að þessi þekking og þessi vitundarvakning skipti mjög miklu máli. Hún þarf nefnilega að eiga sér stað mjög víða. Hún þarf að vera til staðar hjá vísindamönnum, hún þarf að vera til staðar hjá frumkvöðlum. Hún þarf ekki síður að vera til staðar hjá fjárfestum. Það eru til fjárfestar sem í rauninni fjárfesta ekki nema eftir að hafa gengið úr skugga um að einkaleyfi sé til staðar.

Það er áhugavert þegar ýmiss konar frumkvöðlafyrirtæki eru heimsótt að þetta atriði er mjög misjafnt eftir fyrirtækjum. Maður sér að oft eru ný fyrirtæki mjög sterk í þessu. Þá er oftast hægt að rekja það til einhvers starfsmanns sem er með reynslu annars staðar frá úr öðru fyrirtæki sem hefur lagt mikið í þetta. Auðvitað skiptir þetta öllu máli, sérstaklega ef maður horfir til sjávarútvegs t.d., þótt við séum hér að ræða jarðvarma, en í alls konar fyrirtækjum í sjávarútvegi erum við bara með bestu tækni í heimi og það er algjört lykilatriði að við séum með einkaleyfi á þeirri tækni vegna þess eins og ég segi þá geta menn ekki selt það sem þeir eiga ekki.

Ég þakka fyrir fyrirspurnina og ég vona að við munum ræða þetta meira í framtíðinni hér sem og annars staðar.