148. löggjafarþing — 45. fundur,  9. apr. 2018.

lög um félagasamtök til almannaheilla.

407. mál
[18:02]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Líneik Anna Sævarsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra fyrir svörin og hv. þingmönnum innlegg í umræðuna. Ég fagna því, sem kom fram í máli ráðherra, að starfsumhverfi almannaheillasamtaka sé til skoðunar og vil brýna ráðherra til dáða með að þetta dragist ekki um of. Eins og fram hefur komið skiptir sjálfboðaliðastarf í þessum samtökum samfélagið í heild mjög miklu máli.

Mig langar líka að benda á að umsagnir sem komu fram um frumvarpið á sínum tíma voru almennt jákvæðar þó að ábendingar kæmu um ýmis atriði sem þörfnuðust frekari skoðunar. Það kom líka fram að það eru samtök sem ekki höfðu komið að undirbúningsvinnunni sem kannski væri rétt að hefja samtal við. Ég vil þá spyrja hæstv. ráðherra hvort það hafi verið gert. Ég nefni sem dæmi samtök eins og ÍSÍ og hugsanlega fleiri.

Ég tek undir það, sem fram kom í umræðunni, að auðvitað er mjög mikilvægt að allar upplýsingar um starfsemi samtaka sem vinna sjálfboðastarf og styðja jafnvel við ýmsar stofnanir í samfélaginu liggi fyrir aðgengilegar á einum stað, um hvaða skilyrði þarf að uppfylla og hvaða ívilnana slík samtök geta notið.