148. löggjafarþing — 45. fundur,  9. apr. 2018.

lög um félagasamtök til almannaheilla.

407. mál
[18:04]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég þakka þessa umræðu og ítreka að við erum sammála um markmiðið með frumvarpinu, sem er að tryggja sem besta umgjörð um þessa starfsemi, en taka undir, a.m.k. að hluta, með hv. þm. Þórunni Egilsdóttur; ég staldraði akkúrat við þennan þátt. Ég hef þess vegna falið starfsmönnum að vinna nánar með þetta og athuga hvernig við getum náð markmiðum innan núgildandi laga. Bent var á að frumvarpið gæti verið íþyngjandi fyrir félagasamtök, sérstaklega minni félög og grasrótarsamtök, þar sem þeim getur reynst erfitt að uppfylla formskilyrði og fylgja slíkum sérlögum.

Á Norðurlöndunum er almennt ekki sérstök löggjöf um almannaheillasamtök. Það er í Finnlandi en annars staðar ekki. Hvað varðar spurningu hv. þm. Willums Þórs Þórssonar get ég ekki svarað henni. Ég veit ekki hvort gerð hefur verið sérstök úttekt, hvort hún er til, og ef hún er til hver niðurstaðan sé. En það er sjálfsagt að kanna það.

Að öðru leyti þakka ég fyrir góða umræðu.