148. löggjafarþing — 46. fundur,  10. apr. 2018.

störf þingsins.

[14:02]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Um páskana dvaldi ég á Austurlandi, eins og ég hef reyndar gert meiri hluta ævinnar, en fór þá eins og stundum áður að velta fyrir mér þeim lífsgæðum sem felast í búsetu á landsbyggðinni, hvort sem er á minni þéttbýlisstöðum eða í strjálbýli. Ég ætla ekki að tíunda þau hér en bendi samt á endalausa útivistarmöguleika og tækifæri til þátttöku í mjög fjölbreyttu félagsstarfi.

Á sama tíma vakti athygli mína umfjöllun um að íbúum í sveitum landsins færi nú fjölgandi. Það er raunar staðreynd að íbúum í strjálbýli fer fjölgandi í fyrsta skipti í 150 ár. Þetta kom fram í viðtali við Þórodd Bjarnason, prófessor í félagsfræði við Háskólann á Akureyri. Þar byggir hann á íbúatölum Hagstofunnar og greiningu Byggðastofnunar. Fólki í strjálbýli, einkum nærri þéttbýli, hefur fjölgað á síðustu árum og raunar mest í strjálbýli við höfuðborgarsvæðið þar sem íbúafjöldi hefur nær tvöfaldast á sjö árum. Ástæður þessa hafa ekki verið greindar sérstaklega en leiða má líkur að því að tæknibreytingar og aukin ferðaþjónusta sé í lykilhlutverki við að skapa möguleika fyrir fjölbreytt störf fyrir fólk með mismunandi bakgrunn.

Hér hefur okkur oft orðið tíðrætt um fjórða kafla iðnbyltingarinnar; hún skyldi þó ekki leiða til þess að fólki í dreifbýli fjölgi aftur öfugt við fyrsta hluta iðnbyltingarinnar?

Í framtíðinni verður því spurningin kannski ekki: Hvar hef ég starf? heldur: Hvar vil ég búa og búa mér til starf? Af þessum tölum og af umræðum sem ég hef átt síðustu daga tel ég líklegt að fleiri vilji búa í strjálbýlinu en nú eiga kost á. Stjórnvöld þurfa að taka mið af þessu í stefnumótun um uppbyggingu opinberrar þjónustu og innviða. Það er hluti af samkeppnishæfni landsins (Forseti hringir.) til framtíðar að fólk hafi val um að setjast að í borg, minna þéttbýli eða strjálbýli.