148. löggjafarþing — 47. fundur,  11. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[16:24]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (Flf) (andsvar):

Herra forseti. Á þessu stigi umræðunnar langar mig til að víkja að tilhögun hennar frekar en einstökum efnisþáttum í því málefni sem hér liggur fyrir.

Það er mála sannast, herra forseti, að það mál sem hér liggur fyrir er eitt það stærsta ef ekki það allra stærsta sem kemur til kasta Alþingis á þessu méli. Nú er það svo að tilhögun umræðunnar sýnist vera afar knöpp og við erum í þeirri stöðu sömuleiðis að hér ganga orðsendingar á milli fólks sem er að lýsa áhyggjum sínum yfir því að til að mynda muni ekki verða unnt að eiga orðastað við einstaka fagráðherra nema þegar mjög langt verður liðið á kvöldið eða jafnvel fram á nótt og þá jafnvel ekki. Sá knappi tími sem er skammtaður til umræðu um þetta mál sem teygir anga sína svo víða, er mikið áhyggjuefni, ekki síst í ljósi þess að hér reynir verulega á Alþingi og fjárstjórnarhlutverk þess. Það væri miklu æskilegra að þetta mál fengi mun málefnalegri, vandaðri og grundaðri umræðu áður en það fer til hv. fjárlaganefndar en gert sýnist ráð fyrir.

Ég ætla til að mynda að vitna hér í það sem segir um markmið Ríkisendurskoðunar á bls. 148, með leyfi forseta:

„Kanna ráðstöfun fjárveitinga til allra málefnasviða og málaflokka, hafa eftirlit með ríkistekjum og endurskoða alla ríkisaðila A-hluta á hverju ári.“

Hér er um að ræða eftirlitshlutverk (Forseti hringir.) sem Alþingi ætti að gera að sínu að breyttu breytanda og því vil ég leyfa mér að varpa því fram til hæstv. ráðherra hvort hann væri reiðubúinn til að beita sér fyrir því, í samstarfi (Forseti hringir.) við hæstv. forseta, að rýmkuð verði tilhögun þessarar umræðu.