148. löggjafarþing — 47. fundur,  11. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[16:56]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst vera ótrúlega holur hljómur í þeim orðum að Samfylkingin vilji aldrei lækka skatta. Við höfum farið úr djúpri kreppu upp í mikið uppgangstímabil og við erum búin að toppa, við erum komin fram úr toppi hagsveiflunnar. Aldrei allan þennan tíma hefur Samfylkingunni dottið í hug að það væri góð hugmynd eða tímabært að lækka skatta. Aldrei. Þannig að ég kannast ekki við að hér séu á ferðinni talsmenn þess að draga úr álögum á fólkið í landinu.

Ég vek athygli á því sem ég tók fram hér áðan. Tekjuskattur einstaklinga hefur skilað frá árinu 2015–2018 40% hærri tekjum til ríkissjóðs. Er hægt að slaka einhverju af því aftur út til fólks? Ég segi já, alveg tvímælalaust. Það er hægt að leyfa vinnandi fólki að njóta góðs af því að ríkissjóður stendur vel. Það er hægt að gera það.

Varðandi bankaskattinn þá verð ég að segja alveg eins og er að það kemur á óvart að það séu talsmenn hér í þinginu fyrir því að framlengja hann vegna þeirra augljósu neikvæðu áhrifa sem hann hefur á samkeppnisstöðu á fjármálamarkaði. Það er sjálfsagt að skilja eftir það sem við erum að tala um af þeim skatti, en það er ekki í lagi að boða tímabundna skattlagningu eins og þessa, sem var hugsuð í ákveðnum tilgangi líka, og standa síðan ekki við það að láta þann tíma líða eða láta skattinn renna sitt skeið.

Varðandi auðlegðarskatt þá tel ég að við höfum ekki haft neitt sérstaklega góða reynslu af honum. Það sem mér hefur algjörlega þótt skorta í umræðuna um auðlegðarskatt er það að við erum hér að tala um hugmyndir sem snúa að því að skattleggja kapítal sem er í vinnslu, sem er að vinna í þágu efnahagslegra framfara í landinu. Það er ekki eins og þessir fjármunir sitji bara allir inni á bankabók og séu lausir til frjálsrar ráðstöfunar. Þetta eru fjármunir (Forseti hringir.) sem eru bundnir t.d. í fyrirtækjarekstri. Að vera að skattleggja það finnst mér ekki góð hugmynd.