148. löggjafarþing — 47. fundur,  11. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[16:59]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst nálgun hæstv. fjármálaráðherra alltaf vera á þann veg að skattar séu svo slæmir, þeir séu svo vondir, að við eigum að leyfa fólki að njóta góðs af sinni vinnu o.s.frv. Ég get tekið undir það. Fólk á að uppskera eins og það sáir. En hún gleymist alltaf hin hliðin á þessu, þ.e. að almenningur nýtur líka góðs af sterkri opinberri þjónustu. Almenningur nýtur góðs af því að skólarnir séu vel fjármagnaðir, sjúkrahúsin séu vel fjármögnuð og að aðgengið að heilbrigðisþjónustu sé óháð efnahag. Almenningur nýtur góðs af því að samgöngum sé sinnt með sóma o.s.frv.

Við erum hér í samfélagi, við erum í ríku samfélagi. Ísland er ellefta ríkasta land í heimi. Það er úr nægu að spila ef forgangsröðun er rétt. Hún er einfaldlega ekki rétt þegar tekin er ákvörðun um að lækka tekjuskattinn flatt um eitt prósentustig, það kostar 14 milljarða. Það gagnast milljón króna manninum þrisvar sinnum betur, hann fær þrisvar sinnum meiri skattalækkun en aðili sem er á lágmarkslaunum. Þetta er engin sanngirni. Fólk lifir ekki á prósentum. Fólk lifir á krónum. Þetta er atriði sem við erum að gagnrýna.

Bankaskatturinn: Auðvitað kemur sá tímapunktur að hann dettur út. Þetta er sérstakur skattur. En þessi skattalækkun kostar um 6 milljarða, þessi einstaka lækkun sem hér er verið að ákveða kostar 5,7 milljarða. Af hverju geymum við þetta ekki aðeins? Af hverju geymum við ekki aðeins þessa skattalækkun og notum þessa 6 milljarða til dæmis í að tvöfalda vaxtabæturnar eða setja meira í barnabæturnar?

Er þetta forgangsröðun ríkisstjórnarinnar? Já, það er að lækka skatta á hina tekjuháu, lækka skatta á bönkum. Nú eru jafnvel hugmyndir um að verja fjármagnseigendur fyrir væntanlegu verðbólguskoti. Það er hugmyndafræði sem við í Samfylkingunni tökum ekki undir. Þess vegna er ég mjög hissa á því að Vinstri græn séu að gera það núna. Það er sérstakt áhyggjuefni að áhrif Vinstri grænna á skattapólitík næstu fimm ára eru samasem engin, herra forseti.