148. löggjafarþing — 47. fundur,  11. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[17:22]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það eru fjölmargar spurningar sem mig langar að spyrja hv. þingmann. Fyrst varðandi barnabæturnar. Mig langar að vitna í hennar orð, með leyfi forseta:

„Ekki er metnaðurinn meiri þegar kemur að barnabótum þar sem haldið er áfram að þrengja kerfið þannig að mun færri njóta greiðslna í stað þess að nýta þær til að auka jöfnuð milli hópa. Í þessu sem og öðru eru orðin „einföldun og skilvirkni“ notuð til að fela það að útgjöld vegna barnabóta munu væntanlega dragast saman að raungildi sem þýðir að horfið er frá almennum stuðningi við barnafjölskyldur og engin tilraun gerð til að jafna nokkuð aðstöðu þeirra borið saman við einstaklinga og barnlaust fólk yfir í lítils háttar fátækrahjálp.“

Þetta voru orð hv. þm. Bjarkeyjar Gunnarsdóttur fyrir einungis nokkrum mánuðum. Hvernig stendur á því að hún stendur á bak við fjármálaáætlun sem gerir ekki ráð fyrir einni viðbótarkrónu í barnabætur? Ekki einni viðbótarkrónu í barnabætur næstu fimm árin. Hvernig stendur á því, ég get vitnað hér annars staðar í sama nefndarálit þar sem hv. þingmaður er að kalla eftir meiri peningum í vaxtabætur? Hvernig stendur á því að hv. þingmaður stendur bak við fjármálaáætlun sem gerir ráð fyrir 0 kr. til viðbótar í vaxtabætur?

Sömuleiðis hefur þingmaðurinn verið að kalla eftir frekari stofnframlögum hins opinbera í uppbyggingu leiguíbúða. Hún gagnrýndi það sérstaklega í fyrra að það væri verið að draga saman peningana þar. Hún er einmitt að gera það í dag. Það á að helminga þá fjármuni sem fara í uppbyggingu leiguíbúða.

Mig langar að hv. þingmaður fari aðeins yfir það: Af hverju þessi sinnaskipti? Af hverju er hv. þingmaður að standa að fjármálaáætlun sem gengur svo í berhögg við það sem hún sagði fyrir einungis nokkrum mánuðum?

Mig langar líka að benda á varðandi framhaldsskólana: Af hverju er ekki gert ráð fyrir neinni sókn í framhaldsskólakerfið? Framhaldsskólarnir komu á fund fjárlaganefndar í desember og sögðust vera komnir að þolmörkum og gert er ráð fyrir nánast sömu krónutölu í framhaldsskólana og er nú næstu fimm árin. Hvar er menntasóknin þar? Af hverju eru Vinstri græn að svíkja kosningaloforð sitt um að framlög háskólastigsins eigi að ná OECD-markmiðinu (Forseti hringir.) 2020, en það sem er í þessari áætlun, sem nær til 2023, er einungis einn þriðji af því sem þarf til að ná OECD-markmiðinu?