148. löggjafarþing — 47. fundur,  11. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[18:27]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (Flf):

Frú forseti. Hér er um að ræða eitthvert stærsta mál sem Alþingi stendur frammi fyrir eins og ég gat um fyrr í dag. Við erum að vinna að umgjörð fjárlaga næstu fimm ár og það er gert á grundvelli nýrrar umgjarðar um þetta starf allt saman sem er auðvitað lögin um opinber fjármál frá árinu 2015. Þetta starf okkar einkennist kannski af tvennu, annars vegar að vegna sérkennilegra aðstæðna í stjórnmálalífi þjóðarinnar hefur þurft að fara í gegnum þetta ferli með nokkru hraði og í annan stað eru menn kannski enn þá í ákveðnu lærdómsferli varðandi mótun þessarar vinnu í einstökum atriðum. Ég skal ekki fara út í tæknilega þætti í þeim efnum, en félagar mínir í fjárlaganefnd vita auðvitað um hvað ræðir í því sambandi.

Það sem ég vildi gjarnan segja um þessa fjármálaáætlun er að auðvitað má margt gott um hana segja eins og hún blasir við. Hún er að mörgu leyti vandað plagg og í henni er ýmislegt sem má telja jákvætt. Ég vil sérstaklega geta um markmið um lækkun skuldahlutfalls á tímabilinu, afar þýðingarmikið auðvitað, og styrkir vitaskuld stöðu þjóðarbúsins. Af einstökum atriðum mætti ýmislegt nefna. Ég ætla bara að nefna eitt. Vegna þess hvað ég tel íslenska tungu mikilvæga gleðst ég yfir því að ljúka eigi áformum um að reisa Hús íslenskunnar og ég leyfi mér að vænta góðs af þeirri framkvæmd og að það hús verði til þess að stuðla að því að okkur takist það mikilvæga verkefni í samtímanum að, ja, kannski ekki bara efla íslenska tungu heldur hreinlega jafnvel að bjarga henni, eins og sumir hafa talið rétt að komast að orði. Þá vísa ég að sjálfsögðu til mikilvægs fundar í aðdraganda kosninga sem haldinn var í Safnahúsinu við Hverfisgötu að tilhlutan Rithöfundasambandsins og fleiri aðila.

Að þessu sögðu hlýtur maður að taka fyrir þá pólitísku stefnu sem þessi tillaga einkennist af. Þau mál sem mjög hátt hafa borið í okkar samtíma, til að mynda í aðdraganda kosninga, eru annars vegar að hér er hópur fólks í landinu sem hefur setið eða verið látið sitja, frú forseti, á hakanum. Kannski mætti kalla þetta gleymda fólkið. Hitt stóra málið er hin knýjandi nauðsyn á stórátaki varðandi innviði. Síðan eru auðvitað fjölmörg önnur góð mál sem þarf að ráðast í en ég vil gera þessi mál, sérstaklega fyrra málið, að umræðuefni í þessari ræðu.

Núverandi ríkisstjórn er að því virðist núna í annað sinn að missa af dýrmætu tækifæri. Fyrra sinnið var við fjárlagagerðina í desember sl. þegar hún taldi sig ekki geta hækkað bætur bótaþega nema um 4,7%, um tölu sem var gripin utan úr geimnum, studdist ekki við neinar raunhæfar forsendur, hafði enga tengingu við kjaraþróun í landinu og það fólk var skilið eftir með þessum hætti. Núna blasir það við að ríkisstjórnin hefur öðru sinni á skömmum tíma tækifæri til að sýna það að hún vilji standa með þeim hópum. Ég er að sjálfsögðu að tala um ákveðna hópa aldraðra, ég er að tala um öryrkja, bótaþega, ég er að tala um einstaklinga og fjölskyldur, barnafjölskyldur með lágar tekjur.

Þá birtist stefna ríkisstjórnarinnar með þeim hætti að lækka neðra þrep tekjuskattsins um 1%. Auðvitað er það alltaf jákvætt þegar hægt er að lækka skatta, en þessi aðgerð er ekki sérlega markviss eða hnitmiðuð. Þarna missir ríkisstjórnin af því að nota það svigrúm, sem hún telur sig greinilega hafa, til að slaka á klónni í skattamálum og nýta það í þágu þeirra sem höllustum fæti standa. Það blasir auðvitað við, eins og er viðurkennt af öllum, líka ríkisstjórninni, að áhrifaríkasta leiðin til þess er í gegnum persónuafsláttinn, þannig að hann verði stiglækkandi, að hann nýtist einkum þeim sem lægstar hafa tekjurnar. Ég vil reyndar nota þetta tækifæri og geta þess að fyrir Alþingi liggur þingsályktun um þetta efni sem er borin fram af þingmönnum míns flokks, Flokks fólksins og tveimur þingmönnum Miðflokksins.

Þannig, að minnsta kosti að svo komnu máli, þykja ekki efni til þess af hálfu ríkisstjórnarinnar að leysa, ef við tölum sérstaklega um öryrkja, úr þeirri fátæktargildru sem þeim er búin og að menn athugi það að þessi fátæktargildra er manngerð og hún er gerð af hugkvæmni og hún er gerð með þeim hætti að bótaþegi, aðili sem hefur ratað í þær aðstæður, þ.e. ef hann leyfir sér að reyna að bæta hag sinn, hafi hann til þess starfsgetu á annað borð, með aukinni vinnu þá skal það hirt af honum, hver króna undir kjörorðinu, króna fyrir krónu, krónuskerðingu, sem svo er kölluð. Þarna sjá menn að talin er eftir til þessa fólks hver einasta króna, lægsta einingin er ein króna, og engin fjárhæð er svo lág að hún sé ekki talin eftir í þessu manngerða kerfi sem er ekkert annað en fátæktargildra.

Ríkisstjórnin telur ekki efni til þess að svo komnu að fella þetta brott og leyfa fólki það allra náðarsamlegast, ef hún vildi vera svo góð, að það geti í krafti sjálfsbjargar bætt hag sinn án þess að það sé skert í bak og fyrir í gegnum bótakerfið. Hitt er svo annað mál að ríkisstjórnin sýnir það í fjármálaáætluninni að hún býr yfir höfðingsskap, hún býr yfir veglyndi. Og hvar birtist það? Það birtist í áformum um lækkun sérstaks skatts á fjármálastofnanir. Það á ekki að lækka þennan skatt um 10%, 20, 30, 40, 50%, nei, það á að lækka hann um meira en 60%. Þannig að þeir sem standa fjármálamegin í tilverunni, það munar ekkert um það að rétta þeim 60% skattalækkun sem okkur er tjáð í víðlesnu vefriti að rýri tekjur ríkissjóðs um tæpa 6 milljarða. Þannig að viðmótið gagnvart þeim sem höllustum fæti standa er það að hver króna er talin eftir, en gagnvart þeim sem hafa yfir mestu fjárráðunum að ráða að þá er veglyndi, þá er höfðingsskapur og þeir aðilar gleymast ekki, þeir eru ekki gleymdir, þeir sitja ekki á hakanum. Enda njóta þeir bersýnilega velþóknunar.

Frú forseti. Þetta er innsti kjarninn í stefnu þessarar ríkisstjórnar.