148. löggjafarþing — 47. fundur,  11. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[20:16]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég sé að hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra lætur svo lítið að láta sjá sig hér í salnum. Hér hafa tveir þingmenn, m.a. sú sem hér stendur, haldið ræður og ráðherrann ekki í salnum. Ég vil bara spyrja, herra forseti: Hvað hefur hæstv. fjármálaráðherra annað að gera en að sitja hér í þingsal þegar verið er að ræða um fimm ára fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar? Það er hrein skömm að því að það þurfi að kalla í hann hvað eftir annað til að fá hann til þess að vera inni í salnum. Ég óskaði eftir því að hann kæmi hingað eftir að ég var búin með mína ræðu til að hlusta á aðra hv. þingmenn — og ég sé að hann er kominn, það er fínt. Vonandi getur hann setið kyrr þar til þessi ræða er búin og þangað til umræðan er búin í kvöld.