148. löggjafarþing — 47. fundur,  11. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[20:17]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég held hér áfram upptalningu minni á þeim málefnasviðum og athugasemdum sem ég hef varðandi þau mælanlegu markmið sem stjórnvöld setja sér. Þau koma til með að vera grunnurinn að þeim skýrslum sem ráðherra leggur fram til Alþingis á hverju ári, hvernig stjórnvöldum miðar við að ná þeim markmiðum sem þau setja þar fram. Það er ýmislegt áhugavert í þeim markmiðum sem ég vil vekja athygli á. Síðast var ég að tala um lækkun á greiðsluhlutfalli einstaklinga í heilbrigðiskostnaði sem var kannski mun minni en stór orð um fjármálaáætlun gera ráð fyrir.

Varðandi hjúkrunar- og endurhæfingarrými er áhugavert að samkvæmt fyrri fjármálaáætlun eru jafn mörg hjúkrunarrými árið 2016 og 2017. Ekkert virðist hafa verið gert þar. Hvernig stendur á því? Það kemur kannski síðustu ríkisstjórn við að einhverju leyti en eitthvað hlýtur að hafa verið gert. Hvort þetta er villa í tölum veit ég ekki.

Varðandi málefni 27, um örorku og málefni fatlaðs fólks, er stefna stjórnvalda að þeim fjölda sem fær fyrsta 75% örorkumat fækki úr 1.500 á næsta ári niður í 1.200 árið 2023. Á sama tíma á heildarfjölda fólks með 75% örorkumat að fjölga lítillega, eða um 200 manns, á sömu árum. Þetta segir mér að fjöldi þeirra sem hættir á 75% örorkumati sé svipaður og sá fjöldi sem fær nýtt örorkumat en að það sé markmið að draga úr fjölda þeirra sem hætta á örorku. Mér finnst þetta mjög áhugaverð markmið þegar maður púslar þeim saman; að öryrkjum fækki minna samhliða því að fækka á fjölda þeirra sem fá fyrsta örorkumat. Ég tel nauðsynlegt að velferðarnefnd fari vel yfir þessar tölur og ráðuneytið útskýri hvernig það ætli að ná þessum markmiðum og af hverju á að fækka hlutfallslega þeim sem þegar eru öryrkjar.

Annað markmið er að hlutfall lífeyrisþega með of- eða vangreiðslur umfram 50 þús. kr., 100 þús. kr. bil frá réttri greiðslu, lækki. Staðan er sú að 39% lífeyrisþega fá meira en 50 þús. kr. of mikið eða of lítið. Það er mjög hátt hlutfall og mjög virðingarvert að lækka það niður í 20% sem mér finnst samt vera allt of hátt hlutfall. Það getur ekki verið svo flókið að gera þetta nákvæmar.

Enn annað markmið stjórnvalda er að fækka fjölda tilvísana hjá Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins. Ég velti fyrir mér hvort það sé góður mælikvarði. Það á að fara í ákveðnar fyrirbyggjandi aðgerðir. Þá væri kannski eðlilegra að hafa mælikvarðann þar á hversu góðar fyrirbyggjandi aðgerðirnar eru. Að mæla afleiðingarnar endurspeglar ekki endilega árangur þeirra aðgerða sem farið er út í.

Varðandi málefni aldraðra er markmið stjórnvalda á þessu málefnasviði mjög merkilegt. Til að byrja með á að hækka hlutfall 67 ára og eldri sem frestar töku lífeyris um 10 prósentustig. Það á að hækka hlutfall lífeyrisþega með atvinnutekjur um níu prósentustig og lífeyrisþegum sem fá greiðslur frá Tryggingastofnun á að fækka um rúm fimm prósentustig. Þetta er á sama tíma og spáð er vaxandi atvinnuleysi. Ef auka á atvinnuþátttöku eldra fólks, sem er gott og blessað, þýðir það óhjákvæmilega hærra hlutfall atvinnuleysis hjá yngra fólki. Það er óhjákvæmileg afleiðing þessarar stefnu. Ekki ljúga tölurnar hvað það varðar. Það er markmið að ná þessu. Ekki er að sjá að neins staðar annars staðar eigi að lækka atvinnuhlutfall yngra fólks enda myndi það ekki standast því að atvinnuleysi á að aukast samkvæmt hagspám sem stjórnin vinnur jú eftir eins og oft hefur komið fram.

Í fjölskyldumálum: Miðað við fjárframlög í þetta málefnasvið sýnist mér að gera eigi ýmis kerfi innan þess skilvirkari þannig að þau skili þeim fjárframlögum sem eru sett í það frekar til þeirra sem eru tekjulágir. Ég set svo sem ekkert sérstaklega út á það að gera kerfið skilvirkara en geri athugasemdir við tvö atriði. Annars vegar má nefna að hlutfall foreldra sem fá hámarksgreiðslur úr Fæðingarorlofssjóði er það sama og í síðustu fjármálaáætlun. Það sem er athyglisvert er að það hlutfall á síðan að lækka. Líklega vegna þess að það á að hækka þakið. Ég sé hins vegar ekki hvernig það passar við að auka stuðning til tekjulágra foreldra. Hins vegar á hlutfall barna á heimili með tekjur undir lágtekjumörkum einnig að vera það sama og í síðustu áætlun. Það hlýtur þá að vera án þess aukastuðnings sem á að fara til tekjulágra foreldra, nema sá stuðningur breyti engu um stöðu þeirra barna sem horft er til. Það er ákveðin þversögn þarna sem maður skilur ekki samhengið í.

Húsnæðisstuðningurinn er mjög áhugavert málefnasvið. Til að byrja með er nauðsynlegt að minnast á að framlög þessa málefnasviðs eru að lækka af því að hætta á með sérstakt átak í byggingu leiguíbúða. Ég hef ekki hugmynd um af hverju, miðað við stöðuna sem enn er á húsnæðismarkaðnum og þá stefnu sem sett er fram á þessu málefnasviði. Hér kemur fram að hlutfall fjölskyldna, 25 ára og eldri, sem á fasteign hefur farið lækkandi. Samt sem áður er gert ráð fyrir að þetta hlutfall hækki á sama tíma og dregið er úr húsnæðisstuðningi. Mér þætti rosalega vænt um að þetta væri útskýrt.

Annað markmið stjórnvalda er að fjölga þeim sem greiða séreignarsparnað inn á lán. Ég verð að spyrja hvort það sé markmið með séreignarsparnaði að kaupa hús. Af hverju heitir þetta þá ekki bara húskaupasparnaður í staðinn ef nýta á séreignarsparnað í að kaupa hús? Og það sé síðan markmið stjórnvalda að hann sé notaður í það en ekki í sparnað fyrir lífeyri seinna á ævinni.

Síðasta málefnasviðið, fjármagnskostnaður, ábyrgð og lífeyrisskuldbindingar: Hér er stefna stjórnvalda að lækka skuldir, lækka fjármagnskostnað, ekki veita nýjar ríkisábyrgðir og minnka ófjármagnaðar lífeyrisskuldbindingar. Þetta hlýtur að þýða að fjármagnskostnaður lækki. En nei, gert er ráð fyrir hækkandi kostnaði á þessu málefnasviði út fjármálaáætlunina og ég skil ekki af hverju.

Það er ýmislegt í þessu sem er mjög óskiljanlegt.

Varðandi Alþingi og undirstofnanir þess, svo að maður byrji aftur á byrjuninni, eru þar umboðsmaður Alþingis og Ríkisendurskoðun. Þar er ýmislegt áhugavert. Umboðsmaður Alþingis á að skila ákveðnum nýjum forathugunum og fjölda reifana og álita. En árið 2019 fer þeim rosalega fjölgandi, á næsta ári. Samkvæmt áætluninni og aðgerðunum á ekki að ráða nýtt starfsfólk inn til að ná þessum markmiðum fyrr en 2020, alla vega miðað við ártölin. Ég fatta ekki hvernig þetta passar saman.

Nú næ ég væntanlega ekki að fara yfir mikið fleiri málefnasvið en þau eru mjög mörg áhugaverð. Réttindi einstaklinga, trúmál, stjórnsýsla dómsmálaráðuneytisins: Þar er gert ráð fyrir minnkandi framleiðni, að stytta málsmeðferðartíma í útlendingamálum. Mjög merkilegt markmið. En mig langaði að lokum að fjalla um þá stöðu sem fjármálaáætlunin setur okkur í. Það er grunnatriði að hér er verið að hækka útgjöld. Enginn mótmælir því. Hér er verið að veikja tekjustofna. Enginn mótmælir því. Veiðigjöld eiga að lækka um 3 milljarða, það á að lækka tekjuskattsþrepið um 1%. Það er verið að veikja tekjustofna. Jú, vissulega er að koma meiri peningur úr þessum tekjustoðum en það er út af því að við erum í hagvexti. Um leið, eins og fjármálaráð hefur bent á, og hagsveiflan fer upp eða niður fylgjast þessir aðaltekjustofnar mjög að og fylgja hagsveiflunni mjög mikið. Við erum í kólnandi hagkerfi. Við höfum farið úr spá um rúmlega 6% niður í 2,9% í hagvexti á ári, það ætti að segja okkur að áætlaðar tekjur af þessum aðaltekjustofnum ríkissjóðs standa á sandi. Þegar við nýtum afgang veikari tekjustofna til að fara í aukin útgjöld án þess að tryggja sérstakt fjármagn til þess verður ekki mikið eftir af því sem við höfum úr að spila þegar hagsveiflan fer þangað sem verið er að benda á að hún fari. Vissulega segir fjármála- og efnahagsráðherra að við getum farið í mínus, það sé bara allt í lagi. Ég er ekki alveg viss um að ég hafi heyrt það svo oft hjá Sjálfstæðisflokknum áður að það sé í lagi að reka ríkið í mínus, sérstaklega ekki í hagvexti, alla vega miðað við áætlanir. Það er það sem við erum að nota, við erum að miða við þá hagspá sem hér er og hún spáir hagvexti.

Það er margt í þessari fjármálaáætlun sem kemur mér á óvart. Ég bið fólk enn um að hrekja sýn mína á það hvað fjármálaáætlunin gerir; hækkandi gjöld og veiktir tekjustofnar eru einfaldlega eitraður kokteill eins og komist var að orði hér áðan.