148. löggjafarþing — 47. fundur,  11. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[20:33]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Vegna ummælanna um samneysluna þá er ákveðinn kostnaður þar á bak við. Hvernig á að kosta hana er það sem ég er að gagnrýna með skattalækkuninni, hún er í raun kostuð af afgangi að hluta til og náttúrlega skuldalækkun að hluta til líka. Þannig að aukningin á samneyslunni og viðhald hennar miðað við verga landsframleiðslu er dálítið byggð á þessum stoðum sem eru að veikjast. Það er það sem ég er að reyna að gagnrýna varðandi þá áætlun.

Um gjaldið á ferðamenn, eftir því hefur verið kallað í þó nokkuð langan tíma. Það er, eftir því sem ég best skil, til ákveðinnar uppbyggingar, til einskiptisviðhalds eða uppbyggingar, sem væri aftur ekki hluti af samneyslunni, sem gagnrýni mín um lækkun á sköttum snýst um, og ætti að standa undir þeirri almennu þjónustu sem ríkið á veita. Það væri ekkert ógáfulegt, finnst mér, að fjölga og styrkja tekjustofna ríkissjóðs; þá væri jafnvel hægt að lækka þessa þrjá tekjustofna sem eru viðkvæmir fyrir hagsveiflunni á sama tíma eða þá að nýta styrkingu á tekjum ríkissjóðs í þeirri stöðu sem við erum í núna til einskiptisaðgerða. Ef hrynur aðeins undan í hagsveiflunni getum við bakkað og fjármagnað þjónustuna án þess að skerða hana.

Kolefnisgjaldið, það er eitthvað sem kalla hefur verið eftir samkvæmt alþjóðlegum samningum og svoleiðis. Ég sé ekkert sérstaklega að því. Það er alltaf spurning um hvar það eigi að liggja. Þetta er gjald sem kemur til með að hverfa því að við erum að fara í annars konar eldsneyti. Þetta eru öðruvísi gjöld en þær skattbreytingar sem ég gagnrýni varðandi undirstöður (Forseti hringir.) tekna ríkisins.