148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[20:24]
Horfa

Álfheiður Eymarsdóttir (P):

Herra forseti. Markmiðin í sjávarútvegi samkvæmt fjármálaáætlun snúast að mestu um sjálfbærni, eflingu rannsókna og bætt eftirlit. Ein flottasta og mikilvægasta rannsóknarstofnun okkar Íslendinga er Hafrannsóknastofnun. Hún á og rekur tvö rannsóknarskip, annað þeirra er 18 ára og hitt 48 ára. Það sárvantar nýtt skip. Það er hvorki fjárveiting fyrir nýju rannsóknarskipi né heldur gert ráð fyrir auknum erfiðleikum við að leigja fiskiskip til rannsókna.

Þá er heldur engin fjárveiting til vaxandi rannsókna Hafró né almennt aukinna umsvifa sem eru nauðsynleg, bæði vegna fiskeldis, sem stóreykst næstu fimm árin, og í ljósi markmiða ráðherra. Fiskistofa sinnir svo ýmiss konar stjórnsýslu tengdri sjávarútveginum. Þar er eftirlitshlutverkið viðamest. Það var opinberað í sjónvarpsþættinum Kveik í janúar síðastliðnum að valdheimildir og fjárheimildir Fiskistofu, eða skortur þar á, koma í veg fyrir að hún geti sinnt hlutverki sínu sómasamlega. Fjárveitingar til sjávarútvegs og fiskeldismála lækka á þessu fimm ára tímabili um 330 milljónir kr. samkvæmt áætluninni. Ég fæ ekki séð að þessi göfugu markmið, um sjálfbærni og auknar hafrannsóknir, séu raunhæf með þeim niðurskurði.

Ætlast hæstv. sjávarútvegsráðherra til þess að Hafró afli enn meira sjálfsaflafjár en stofnunin gerir nú þegar? Báðar þessar stofnanir þurfa meira fé. Það gengur ekki að setja falleg markmið á blað en láta enga fjármuni fylgja með. Ég vísa til orðtaks sem margir af mínum uppáhalds hægrimönnum nota oft, með leyfi forseta: „There ain´t no such thing as a free lunch.“ Á góðri íslensku mætti þýða það: Ókeypis hádegisverður er ekki til.

(Forseti (SJS): Forseti mælir með íslenskunni.)