148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[21:57]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Í þessari umræðu vil ég víkja að kaflanum um samstarf um öryggis- og varnarmál. Í aðgerðatöflunni sem kemur fram í fjármálaáætluninni kemur fram að það eigi að styrkja starfsemi Landhelgisgæslunnar til að takast á við aukningu í loftrýmisgæslu og varnartengdum verkefnum. Ég hefði gjarnan viljað fá nánari útskýringu á þessu af hálfu hæstv. ráðherra. Hvað er verið að tala um háar upphæðir í þessu sambandi og í hverju felast þessi varnartengdu verkefni? Erum við að sjá vísi að því að Landhelgisgæslan þróist í þá átt að vera hernaðarleg starfsemi? Er það stefna þessarar ríkisstjórnar?

Einnig er í töflunni um markmið og mælikvarða fjallað um hlutfall fjárveitinga og styrkja til framkvæmda hér á landi úr sjóðum NATO og með vísan til varnarsamningsins. Árið 2017 voru 400 milljónir undir þessum lið. Frá árinu 2019 er gert ráð fyrir 1,7 milljarði árlega á tímabilinu. Hér er um verulega hækkun að ræða. Ég vil því spyrja hæstv. utanríkisráðherra í hvað þessir fjármunir eru ætlaðir.

Í aðgerðatöflunni er liður sem heitir Fjöldi gistirýma innan öryggissvæðisins. Þetta kom fram hér áðan í umræðunni, þeim er fjölgað í 400. Mig langar að vita hvers vegna þetta er nauðsynlegt. Er hugsanlega verið að undirbúa fasta viðveru herliðs á Keflavíkurflugvelli? Er það stefna þessarar ríkisstjórnar?