148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[21:59]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Bara til að svara því þá er ekki verið að fara að hervæða Landhelgisgæsluna og það er ekki verið að koma á fastri herstöð hér á Íslandi og það hefur enginn farið fram á neitt slíkt. Þetta er fyrst og fremst til komið vegna þess að það hafa verið aukin umsvif Rússa hér við land eins og við þekkjum. Það var ágætlega farið yfir það í þættinum Kveik fyrir nokkrum vikum síðan. Ég hvet hv. þingmann til að kynna sér það, það var gert alveg prýðilega. Á tímabilinu er fyrst og fremst gert ráð fyrir aukningu á framlögum til verkefna í öryggis- og varnarmálum sem við erum skuldbundin til að taka þátt í. Á þessu tímabili er stefnt á að efla og tryggja virka þátttöku Íslands í starfi NATO, ÖSE, NORDEFCO og Sameinuðu þjóðanna á sviði öryggis- og varnarmála, ásamt tvíhliða varnarsamstarfi við Bandaríkin. Í áætluninni er gert ráð fyrir endurnýjun ratsjár og rekstri þess.

Það eru stóru upphæðirnar í þessu. Það er í rauninni ekkert nýtt í þessu. Það er verið að mæta uppsafnaðri viðhaldsþörf varnarmannvirkja og varnarkerfa í samræmi við staðla Atlantshafsbandalagsins og tryggja reglubundið viðhald tækja og kerfa sem tengjast þátttöku Íslands í loftrýmisgæslu og loftrýmiseftirliti umhverfis landið. Einnig þarf að bæta gistiríkjastuðning Íslands á næstu árum, m.a. með fjölgun gistirýma, þannig að fyrir hendi sé fullnægjandi viðbúnaðargeta og öryggi til þess að taka á móti liðsafla á friðartímum sem og hættu á ófriðartímum ef þörf krefur. Í fjármálaáætluninni er ekki gert ráð fyrir þeim kostnaði.