148. löggjafarþing — 54. fundur,  24. apr. 2018.

störf þingsins.

[13:57]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (Flf):

Virðulegi forseti. Fyrir helgi birti Hafrannsóknastofnun niðurstöður stofnmælinga botnfiska sem fram fóru í lok febrúar fram til mars sl. Þetta er hið svokallaða togararall sem framkvæmt hefur verið með sambærilegum hætti sl. 33 ár, þ.e. frá 1985. Niðurstöður þessara mælinga eru mikilvægar sem grunnur til að leggja mat á stærð og ástand helstu nytjastofna botnfiska við landið, svo sem þorsks, ýsu, ufsa og karfa. Auðvitað vega þær niðurstöður þungt í ráðgjöf fiskifræðinga um heildarveiði úr helstu nytjastofnum okkar.

Margt áhugavert kemur í ljós þegar skýrslan er skoðuð. Áhyggjum veldur að þarna mælist þó nokkur lækkun á stofnvísitölu þorsks frá sömu mælingum fyrir ári, u.þ.b. 20% lækkun mælist á fyrrgreindri vísitölu milli ára þótt á það sé bent í skýrslunni að lækkun frá meðaltali síðustu fimm ára sé um 5%. Hverjar eru afleiðingar þessa fyrir matið á stofnstærð þorsksins, okkar mikilvæga nytjastofns? Þetta mat á að liggja fyrir nú í sumarbyrjun sem er til grundvallar ráðgjöf og ákvörðun um veiðar næsta fiskveiðiárs. Undanfarin ár höfum við séð ánægjulega aukningu milli ára í stofnvísitölu þorsksins, kvótinn hefur aukist að sama skapi úr 160.000 tonnum á fiskveiðiárinu 2010/2011 í 255.000 tonn á yfirstandandi fiskveiðiári. Jafnvel þótt tekjur þjóðarbúsins af sjávarútvegi hafi hlutfallslega orðið veigaminni en fyrir nokkrum árum deilir enginn um að búseta víða um land er háð þessari auðlind.

Gæti farið svo að við séum að horfa til þess í fyrsta skipti í mörg ár að þorskkvótinn verði ekki aukinn á næsta fiskveiðiári eða það sem verra er, að hann verði jafnvel minnkaður frá því sem verið hefur? Ég tel hér um mikilvægar upplýsingar að ræða sem þurfa alla athygli þingsins.