148. löggjafarþing — 54. fundur,  24. apr. 2018.

rannsóknir á örplasti í lífverum sjávar í Norður-Atlantshafi.

120. mál
[20:21]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Ari Trausti Guðmundsson) (Vg):

Frú forseti. Plast rís hátt í umfjöllun þessa daga. Það er við hæfi að Vestnorræna ráðið fái Alþingi til að útbúa þingsályktunartillögu um plast til þinglegrar meðferðar. Það er hefðbundið ferli tiltekinna samþykkta frá Vestnorræna ráðinu til þjóðþinganna þriggja.

Þingsályktunartillagan snýst um plast í hafinu og ólíkt því sem hefur sést vel til, þ.e. plokkara á ferð um borg og bý að tína upp plast og bláa herinn að hreinsa strendur, er plast í úthafi, einkum örplast, erfiðara viðfangs. Áskorun Vestnorræna ráðsins er sem sagt tilefni til þingsályktunar um rannsóknir á örplasti í lífverum sjávar í Norður-Atlantshafi. Hún snýst um rannsóknir á þessu hættulega smágerða plasti og um aðra plastmengun. Mun ég nú gera grein fyrir áliti hæstv. utanríkismálanefndar.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Guðjón S. Brjánsson, formann Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins, Sigurð Ólafsson, framkvæmdastjóra Vestnorræna ráðsins, Bylgju Árnadóttur, ritara Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins, og Huga Ólafsson frá umhverfis- og auðlindaráðuneyti.

Með tillögunni er ríkisstjórn Íslands hvött til að hefja samstarf við landsstjórnir Færeyja og Grænlands um rannsóknir á örplasti í sjávarlífverum og útbreiðslu plastmengunar í Norður-Atlantshafi. Tillagan er lögð fram á grundvelli ályktunar Vestnorræna ráðsins nr. 3/2017 sem samþykkt var á ársfundi ráðsins 1. september 2017 í Reykjavík.

Í greinargerð er m.a. lögð áhersla á stöðu sjávarútvegs sem undirstöðuatvinnugreinar á Vestur-Norðurlöndum og mikilvægi þess að standa vörð um auðlindir sjávar. Plastmengun í hafi ógni vistkerfi sjávar og geti haft langtímaáhrif á sjávarlífverur og þar með afkomu landanna. Þörf sé á auknum rannsóknum á því hvort og hvar örplast finnist í fæðukeðju sjávar og hvaða afleiðingar það hafi. Einnig þurfi stjórnvöld að grípa til ráðstafana til að draga úr mengun af völdum alls kyns plasts í stærri mælikvarða en örplast og áhrifum hennar á umhverfið.

Nefndin tekur undir áskorun Vestnorræna ráðsins til ríkisstjórnarinnar um að undirbúa og hefja samstarf við landsstjórnir Færeyja og Grænlands í samræmi við efni þingsályktunartillögunnar. Nefndin vill um leið árétta þá skoðun að samstarfið sé árangursríkast um hríð með því að beina mestri vinnu að rannsóknum á örplasti í lífverum í hafinu við löndin þrjú. Samhliða því verður að kanna og ákvarða með hvaða hætti unnt er að vinna gegn slíkri mengun. Hvað varðar rannsóknir á útbreiðslu plastmengunar í Norður-Atlantshafi, eins og farið er fram á í tillögunni, telur nefndin og tekur fram að þjóðirnar þrjár verða að leita víðtæks samstarfs þjóða við þetta hafsvæði og hagnýta sér þegar fengnar upplýsingar um plastmengun í hafi frá alþjóðastofnunum. Rannsóknir á plastmengun í Norður-Atlantshafi eru tíma- og fjárfrek verkefni og vart á könnu þriggja smæstu þjóðanna í þessum heimshluta en afar brýnar eins og hvers kyns aðgerðir gegn plastmengun eru nú orðnar.

Nefndin er einhuga og leggur því til að tillagan verði samþykkt.

Því má hins vegar bæta við að lokum að ýmsar alþjóðlegar stofnanir og samtök vinna að eða ætla að vinna að sömu markmiðum. Þetta er enn fremur eitt af markmiðum í samstarfssamningi núverandi ríkisstjórnar hér á Íslandi. Allt er þetta gert í þeim tilgangi að vinna bug á þessari bráðu vá.

Undir nefndarálitið ritar öll hæstv. utanríkismálanefnd: Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, Ari Trausti Guðmundsson, Álfheiður Eymarsdóttir, Bryndís Haraldsdóttir, Gunnar Bragi Sveinsson, Logi Einarsson, Rósa Björk Brynjólfsdóttir, Silja Dögg Gunnarsdóttir og Þorgerður K. Gunnarsdóttir. Inga Sæland, áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins, lýsir sig samþykka áliti þessu.

Frú forseti. Ég hef lokið máli mínu.