148. löggjafarþing — 55. fundur,  25. apr. 2018.

ættleiðingar.

128. mál
[17:53]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er alls ekki ætlun mín að vera með tilraunir til að reka hv. þingmann á gat, síður en svo, heldur var það fyrst og fremst af eðlislægri forvitni að sá sem hér stendur spurði og kemur til af því að það er oft þannig að til þess að lög eins og þessi geti virkað þá þurfa að vera vísanir og millivísanir. En ég vænti þess að hv. þingmaður fái tækifæri til þess, meðan ég stend hér í ræðustól og masa, að líta yfir lagatextann og sjá hvort þetta eigi við því að ég er kannski ekki alveg búinn að velta þessu eins mikið fyrir mér í smáatriðum eins og hv. þingmaður og hv. allsherjar- og menntamálanefnd.

Ég tel að með þessari lagasetningu og lagabreytingu séum við að stíga mikilvægt skref sem geti í rauninni stutt við þessi börn og þessi ungmenni, þessar fjölskyldur. Og einmitt eins og hv. þingmaður kom óbeint inn á í sinni framsögu áðan, þá getur þetta ef eitthvað er hjálpað fólki í þeirri erfiðu stöðu og því sorgarferli sem fylgir andláti foreldris.