148. löggjafarþing — 58. fundur,  2. maí 2018.

úttekt á barnaverndarmáli.

[15:10]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Herra forseti. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar kemur fram, með leyfi forseta:

„Löggjafar-, fjárstjórnar- og eftirlitshlutverk Alþingis verður styrkt á kjörtímabilinu með auknum stuðningi við nefndastarf og þingflokka.“

Ástæða þess að ég rifja upp þessi ágætu orð eru nýjustu fréttir á vef Stjórnarráðsins þar sem fram kemur, með leyfi forseta:

„Að tillögu Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra hefur verið ákveðið að fram fari óháð úttekt á tilteknum málum á sviði barnaverndar hér á landi, sem verið hafa til umfjöllunar í velferðarráðuneytinu og hjá velferðarnefnd Alþingis.“

Á vefnum kemur einnig fram að úttektin muni taka til skoðunar fyrirliggjandi gögn málsins og málsmeðferð viðkomandi stjórnvalda, þ.e. þeirra barnaverndarnefnda sem tengjast viðkomandi málum, Barnaverndarstofu og velferðarráðuneytis.

Fyrir það fyrsta vil ég taka fram að hæstv. forsætisráðherra er væntanlega kunnugt um að frumkvæðisathugun á einmitt þessum efnistökum stendur yfir í velferðarnefnd. Það kemur fram í tilkynningunni.

Þess vegna verð ég að spyrja hvers vegna hæstv. ráðherra fyrirskipar þessa úttekt án samráðs við velferðarnefnd í ljósi þessara ágætu orða í stjórnarsáttmálanum.

Í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins kemur einnig fram að úttektinni skuli lokið í byrjun júní. Frumkvæðisathugun velferðarnefndar er langt frá því að vera á frumstigum en ætla má að henni geti lokið töluvert fyrr aflétti ráðherra trúnaði af minnisblöðum ráðuneytisins og samskiptum starfsmanna ráðuneytisins og ráðherra um téð minnisblöð. Finnst hæstv. forsætisráðherra hún ekki vera að grípa fram fyrir hendurnar á velferðarnefnd með þessum aðgerðum sínum? Ætlar hæstv. forsætisráðherra með þessum aðgerðum að stíga inn í störf Alþingis þegar það sinnir eftirlitsskyldum sínum og tefja þau fram að sumarfríi?