148. löggjafarþing — 58. fundur,  2. maí 2018.

kalkþörungavinnsla.

288. mál
[17:08]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmönnum fyrir að taka þátt í þessari mikilvægu umræðu og tek undir að við ræðum hér mál sem fengið hefur litla athygli hingað til þannig að það er einstaklega jákvætt að hv. þm. Ari Trausti Guðmundsson skuli hafa tekið það upp.

Ég vil aðeins nefna að í bakgrunnsskýrslu OSPAR og líka í umsögn Hafrannsóknastofnunar um fyrirhugað efnisnám í Ísafjarðardjúpi kemur fram að rannsóknir á kalkþörungum í hafinu umhverfis Ísland séu fáar og að ekki sé vitað hversu háu hlutfalli af kalkþörungasvæðum við Vestfirði eða á Íslandi almennt hafi verið raskað. Ég tek undir með hv. þingmanni að við vitum ekki mjög mikið um þessi mál.

Ekki er heldur vitað hvort fleiri en ein samfélagsgerð lífvera þrífist á kalkþörungasvæðunum, en nýleg rannsókn sýnir að hér við land eru til fleiri en ein tegund af kalkþörungunum sem mynda kalkþörungabúsvæðið. Vitað er að kalkþörungar eru hægvaxta og er eyðilegging á þeim talin óafturkræf. Ekki eru til sérstakar reglur eða lög um vernd eða nýtingu kalkþörungasvæða á Íslandi og almennt hafa ekki verið settar sértækar reglur um búsvæði eða vistgerðir í hafinu umhverfis Ísland. Einu búsvæðin í hafinu við Ísland sem vernduð hafa verið eru kóralsvæði og hverastrýtur. Það er að mínu mati æskilegt að auka rannsóknir á útbreiðslu kalkþörunga við Ísland, meta hve miklu af kalkþörungasvæðunum hefur verið raskað og í framhaldinu að skoða þörfina á reglum um verndun og nýtingu á þessu viðkvæma búsvæði. Ég hyggst taka það mál upp við sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Hvað varðar spurningar hv. þm. Willums Þórs Þórssonar um vöruþróun verður ráðherra að viðurkenna að hann er ekki með á takteinunum svör við þeim spurningum, því miður. Annars vil ég þakka þingmönnum fyrir þessar góðu umræður. Vonandi sjáum við þessi mál þróast á jákvæðan hátt í framtíðinni, öllum til hagsbóta.