148. löggjafarþing — 59. fundur,  3. maí 2018.

kosningar til sveitarstjórna.

40. mál
[19:19]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni Óla Birni Kárasyni fyrir góða ræðu. Það eru atriði sem mig langar til að koma inn á sem snúa að því sem hann ræddi um, að halda málinu á forræði þingsins til frekari skoðunar á næstu árum. Mér leikur hugur á að vita hvernig hann sér fyrir sér að það myndi gerast ef slík leið er fær.

Ég held að það sé mikið til þess vinnandi að finna leið til þess að hægt sé að vinna málið áfram, skoða þetta heildstætt. Eins og hv. þingmaður hefur komið inn á í ræðu sinni fyrr í dag og sömuleiðis fyrir nokkrum vikum þegar við hófum 3. umr., er sú stórundarlega staða að verið sé að slíta í sundur kosningaaldur og sjálfræðisaldur, kjörgengi og kosningarrétt. Því miður fæ ég það ekki til að ganga upp með neinum vitrænum hætti, þegar síðan ofan á bætast áhyggjur af því hvernig samskiptum frambjóðenda og þessara yngstu kjósenda skuli vera háttað ef þessi breyting er samþykkt án þess að aðrar reglur séu aðlagaðar. Ég hef ekki orðið var við það hjá þeim sem tala fyrir þessu máli í þingsal að þeir tali gegnumgangandi fyrir því að aðlaga sjálfræðisaldurinn til lækkunar svo dæmi sé tekið, nema þá helst hv. þm. Óli Björn Kárason, sem hefur talað skýrt í þeim efnum og fært fram ágætisrök fyrir því.

Mér leikur hugur á að vita hvernig hv. þingmaður sér fyrir sér að þessari áframhaldandi vinnu innan þingsins (Forseti hringir.) gæti verið háttað.