148. löggjafarþing — 59. fundur,  3. maí 2018.

kosningar til sveitarstjórna.

40. mál
[19:29]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Frú forseti. Bílprófsaldur í Bandaríkjunum er 16 ár, hann er 17 ár hér. Slysatíðni í Bandaríkjunum, hjá fólki 16 ára á fyrsta ári bílprófs, er sú sama og 17 ára á fyrsta ári bílprófsins, ég held að kannanir sýni það. Ef við myndum lækka bílprófsaldurinn hér niður í 16 ár er ekki líklegt að það muni leiða af sér fjölgun bílslysa. Það er nefnilega æfingin sem skapar meistarann, í þessum efnum sem öðrum. Það eru nokkur ár síðan menn tóku þá skynsamlegu ákvörðun, held ég, að hægt er að fá leyfi til æfingaaksturs 16 ára. Það hefur gefist vel. Það hefur örugglega leitt til þess að alvarlegum slysum hefur fækkað.

Þegar við ræðum um að lækka sjálfræðisaldurinn — ég kemst ekki fram hjá því að það verði að vera samhengi á milli kosningaaldurs og sjálfræðis — verða menn líka að velta fyrir sér hvaða áhrif það hefur á önnur atriði sem okkur þykir vænt um. Það voru nefnilega ákveðin rök fyrir því að menn tóku hér ákvörðun um að hækka sjálfræðisaldurinn upp í 18 ár. Rökin voru fyrst og fremst þau (Forseti hringir.) að við vildum halda lengur verndarhendi yfir börnunum okkar.