148. löggjafarþing — 59. fundur,  3. maí 2018.

kosningar til sveitarstjórna.

40. mál
[19:55]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir þetta andsvar. Mér þykir svolítið skrýtið að heyra þá frétt, fyrir mér a.m.k., að fulltrúar menntamálaráðuneytisins hafi sagt á fundi nefndarinnar að ekki væri um sérstaka fræðslu að ræða. Auðvitað ætti það að vera. Ég er alveg sammála þingmanninum í því. Það ætti að vera grundvallaratriði að ungt fólk gæti gengið upplýst inn í kjörklefana ef það á að fá kosningarrétt 16 ára. Það eru miklu færri en fleiri sem hafa sýnt þessu áhuga eins og fram hefur komið hvað eftir annað. Sú fræðsla ætti að vera um stjórnmál en ekki flokkspólitísk fræðsla, sem gengur ekki.

Ég sagði einmitt frá því í ræðu um þetta sama mál í haust að þegar ég var unglingur var einn kennari sem vogaði sér að ræða þessi mál, alveg ópólitískt. En hann lét okkur æfa okkur í að standa upp og tala. Þetta hreyfði við taugum í mínu brjósti en því var ekki fylgt eftir fyrr en 40 árum síðar þegar ég bauð mig fram til Alþingis. Það er full ástæða til að fræða ungmenni um stjórnmál. Þau mynda sér síðan skoðanir í framhaldi af því þannig að þau viti (Forseti hringir.) um hvað málið snýst en fari ekki bara inn í klefa og kjósi eitthvað sem mamma og pabbi eða einhverjir segja þeim að kjósa.