148. löggjafarþing — 63. fundur,  29. maí 2018.

Jöfnuður og traust.

[14:52]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Hæstv. forsætisráðherra hóf ræðu sína áðan á því að tala um að henni fyndist umræða um jöfnuð og traust áhugaverð. Hæstv. ráðherra finnst umræðan áhugaverð og veltir fyrir sér nálgun fræðimanna. Sú sem hér stendur telur að umræða um traust og jöfnuð eigi að vera aðalefni stjórnmálanna, enda er það hjartað í jafnaðarstefnunni.

Hæstv. forsætisráðherra talaði um að draga ætti úr greiðsluþátttöku einstaklinga í heilbrigðiskerfinu. Það er ágætt. En að loknum þeim aðgerðum sem talað er um í fjármálaáætluninni verður greiðsluþátttakan sambærileg við það sem gerist á Norðurlöndunum og það er einmitt það sem verið er að gagnrýna í skýrslu norrænu ráðherranefndarinnar og talað um að eigi að forðast; að greiðsluþátttaka í velferðarkerfinu sé nú þegar of há. Það þarf því að gera betur vilji ríkisstjórnin auka jöfnuð í samfélaginu.

Í þessari skýrslu norrænu ráðherranefndarinnar er einnig talað um barnabætur og húsnæðisbætur og hvað þær skipti miklu máli til að jafna stöðu fólks og að þær þurfi að fylgja launaþróun. Verkalýðsfélögin hér á landi hafa margoft bent á að verið sé að veikja þessi miklu og góðu jöfnunartæki, barnabætur og húsnæðisbætur, og það hefur verið pólitísk ákvörðun að veikja þau jafnt og þétt undanfarin ár. Það þarf ekki að bíða eftir nefndum, það þarf aðeins að gera breytingartillögu við fjármálaáætlun en þar er einmitt þak á barnabætur og húsnæðisbætur eru allt of lágar.

Staðreyndin er sú að 218 fjölskyldur, sem mynduðu ríkasta 0,1% landsmanna, áttu rétt rúmar 200 milljónir kr. í hreinni eign í lok árs 2016. Þessi hópur auðmanna jók hreinar eignir sínar um 14 milljarða kr. á því eina ári. (Forseti hringir.) Hér tala hv. stjórnarþingmenn um að allir sækist eftir meiri jöfnuði og að jöfnuður leiðir til betra samfélags. Ég hlýt því að biðja um skýr svör við því hvernig á að ná niður þeim ójöfnuði sem er greinilega að hrannast upp hér á landi fyrir framan augun á okkur.