148. löggjafarþing — 63. fundur,  29. maí 2018.

Jöfnuður og traust.

[14:54]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. málshefjanda og hv. þingmönnum fyrir þessa mikilvægu umræðu. Mér þykir mikilvægt að segja að ég held að það sé mjög gott að stjórnmálamenn kynni sér það sem fræðimenn eru að fjalla um þegar kemur að jöfnuði og trausti. Ég vona nú að hv. málshefjandi sé sammála mér þótt ég hafi þóst skynja að henni fyndist léttvægt að vitna í þetta stóra mál, sem hefur einmitt verið mjög mikið rætt á vettvangi fræðanna, þ.e. hvort traust sé forsenda jafnaðar eða jöfnuður forsenda trausts. Ég hefði haldið að hv. þm. Oddnýju Harðardóttur þætti það mikilvæg umræða. Þetta er það sem meðal annars er verið að ræða á öllum Norðurlöndum og þetta eru þær spurningar sem fræðimenn eru að spyrja til að skilja af hverju þróunin í ólíkum löndum eftir fjármálakreppuna hefur orðið jafn ólík og raun ber vitni. Ég held að stjórnmálaumræðan hér á Íslandi gæti jafnvel orðið betri ef hv. þingmenn vildu fara út í þessar dýpri pælingar þegar þeir hafa tækifæri til að skoða stjórnmálaástandið og bera það saman við það sem er að gerast í öðrum löndum.

Ég fór yfir í ræðu minni hvað gert hefur verið. Ég held að það væri líka til bóta fyrir umræðuna ef við viðurkenndum það sem verið er að gera rétt. Við erum að fara niður með greiðsluþátttökuna og þær skattbreytingar sem ríkisstjórnin hefur innleitt hafa þjónað því markmiði að auka jöfnuð til að berjast gegn auknum eignaójöfnuði. Það er sá ójöfnuður sem ég hef mestar áhyggjur af í þessu samfélagi, eignaójöfnuðurinn. Við erum að fara í endurskoðun á skattkerfinu til að koma til móts við hina tekjulægri. Ég hefði haldið, þegar um er að ræða jafn mikilvæg málefni og við erum að tala um, kjör tekjulægstu hópanna, jöfnuð í samfélaginu, og hvort traustið byggist á þeim jöfnuði, að við ættum að geta sammælst um það sem vel er gert þó að sjálfsögðu sé hægt að gera betur í ýmsum málaflokkum. Þar hafa hv. þingmenn nefnt ýmsa ólíka þætti. Hér hefur verið rætt um menntakerfið, (Forseti hringir.) vaxtastigið í landinu, húsnæðiskostnað. Ég tel raunar að það sé engin tilviljun að húsnæðismálin voru þau mál sem flestir ræddu við mig í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga. Það er raunverulegt mál sem við þurfum að horfa til.

Ríkisstjórnin er svo sannarlega að nýta það svigrúm sem hún hefur skapað í fjármálaáætlun til að reyna að auka jöfnuð og við eigum eftir að sjá frekari aðgerðir í þeim efnum.