148. löggjafarþing — 64. fundur,  29. maí 2018.

persónuvernd og vinnsla persónuupplýsinga.

622. mál
[19:02]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka þingmanni þessar spurningar. Þetta er algjörlega rétt hjá honum, ég finn þetta ekki heldur. Þess vegna er ég mjög hræddur við þessa lagasetningu, það virðist engu breyta, eins og segir í textanum. Og þessi víðtæka heimild sem er til staðar plús það sem sagt er í sambandi við maka. Orðrétt segir, með leyfi forseta:

„Einstaklingar sem eru í óvígðri sambúð njóta sömu réttinda, bera sömu skyldur og hjón samkvæmt lögum þessum. Sameiginlegt lögheimili eða sambúð eftir öðrum ótvíræðum gögnum lengur en eitt ár skal lagt að jöfnu við skráningu sambúðar.“

Nú er fullt af ungu fólki, kannski fjórir, fimm saman, að leigja eina íbúð. Ef þeir eru búnir að vera þar í eitt ár, og kannski tveir, þrír á bótum Tryggingastofnunar, búnir að vera saman í eitt ár, eru þeir þá orðnir hjón? Á að samskatta viðkomandi án þess að spyrja þá að því? Samkvæmt þessu má það.

Ég segi bara: Hvar er persónuvernd þessara einstaklinga? Hvernig eiga þeir að verja sig gagnvart þessu kerfi?

Ég segi fyrir mitt leyti að það er því miður farið ótrúlega illa með þá sem eru skjólstæðingar Tryggingastofnunar ríkisins að þessu leyti. Við verðum að bera alla vega smávirðingu fyrir því að við erum að eiga við veikt fólk, gamalt fólk og barnafjölskyldur. Það hlýtur að vera það síðasta að horfa á þá einstaklinga sem svikara eða eitthvað þaðan af verra.