148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

samkomulag um lok þingstarfa.

[12:19]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Hæstv. forseti. Þetta eru náttúrlega makalausar upplýsingar. Hér á að ríkja gagnkvæmur skilningur. Hér á að ríkja virðing og töluverð sátt um störfin hér á þinginu á lokametrunum. Þingmannamál, meðal annars frá stjórnarandstöðunni, komast ekki á dagskrá þingsins af því að stjórnarmeirihlutinn vill ekki afgreiða þau úr nefnd. Samt eru þetta mál sem allir eru sammála um, það bara má ekki afgreiða þau úr nefnd af því þau eru ekki frá réttum aðila — þó að þau séu þjóðhagslega mikilvæg, eins og sum mál frá Miðflokknum og frá Flokki fólksins. Og ég get líka nefnt þjóðarsátt um bætt kjör kvennastétta. Það bara má ekki afgreiða þetta.

Ég hvet hæstv. forseta til að gera hlé hið snarasta á þinginu og funda strax, ekki bíða tíu mínútur, að við tölum undir liðnum um fundarstjórn forseta; gera einfaldlega hlé, ganga hreint til verks og fara að tala við þingflokksformenn. Þannig mun þetta ganga betur, þannig fáum við skilning á hugsunarhætti og hugmyndaauðgi ríkisstjórnarinnar. (Forseti hringir.) Ef það verður ekki gert krefst ég þess að forsætisráðherra komi hingað í salinn og taki þátt í umræðunni. Ég vil fá forgangsröðun ríkisstjórnarinnar á hreint þegar kemur að þingstörfum. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)