148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

samkomulag um lok þingstarfa.

[12:33]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Það er ótrúlegt bíó að koma í þennan sal eftir átta ára fjarveru og sjá hve lítið hefur breyst. Mér finnst við oft upplifa, eins og var lýst ágætlega í myndinni Groundhog Day, að við erum alltaf að lenda í sömu sporunum aftur og aftur. Það er eins og að um leið og sauðburður hefjist fari stjórn þingsins algerlega af hjörunum. Við sjáum að á fjórum dögum eigum við að afgreiða fjármálaáætlun upp á 5.000 milljarða sem og umfangsmestu breytingu á persónuverndarlöggjöf sögunnar, ef svo má segja, og nú undir það síðasta er búið að kasta inn pólitískri jarðsprengju sem er lækkun veiðileyfagjalda. Hvers konar hugsun er þetta hjá meiri hlutanum? Eru menn ekkert að hugsa, herra forseti?

Við eigum að hætta þessu meirihlutadekri. Ég batt vonir við núverandi forseta þingsins því að hann hefur eytt stærstum hluta starfsævi sinnar í stjórnarandstöðu. Hann ætti að vita hvað við erum að segja. Við þurfum að ná meira saman, við þurfum að hafa skilvirkara samtal milli stjórnar og stjórnarandstöðu. (Forseti hringir.) Þjóðin hefur kallað eftir því en boltinn er hjá meiri hlutanum. Það þarf tvo í tangó.