148. löggjafarþing — 69. fundur,  6. júní 2018.

störf þingsins.

[10:56]
Horfa

Ásgerður K. Gylfadóttir (F):

Herra forseti. Ég vil vekja athygli á erfiðum rekstri hjúkrunarheimila. Eins og fólk hér inni veit þá eru hjúkrunarheimili rekin af daggjöldum frá Sjúkratryggingum Íslands, en það eru daggjöld sem tæplega duga fyrir þeim rekstri sem gert er ráð fyrir í kröfulýsingu til þessara stofnana frá ríkinu. Þar er kveðið á um ýmsa þjónustu sem er vel og gerir að verkum að heimilin eiga að veita ákveðna gæðaþjónustu sem er mjög gott. Hins vegar hefur féð ekki verið að aukast í takt við þær kröfur sem eru gerðar til starfseminnar.

Í dag er til dæmis gerð krafa um að næringarrekstrarfræðingur starfi við öll hjúkrunarheimili, en samkvæmt mínum upplýsingum eru ekki nægjanlega margir næringarrekstrarfræðingar á landinu til þess að dekka þær stöður. Hjúkrunarheimilin hafa mörg hver þurft að sækja um undanþágu frá þessu ákvæði og hefur ekki verið gerð athugasemd við það hjá Sjúkratryggingum.

Annað, sem er alvarlegra mál, er það að landlæknisembættið hefur sett upp mönnunarviðmið fyrir hjúkrunarheimilin, en greiðslurnar sem hjúkrunarheimilin fá eru ekki í takt við þau mönnunarviðmið landlæknisembættisins því að Sjúkratryggingar treysta sér ekki til að greiða daggjöld í takt við það sem landlæknisembættið telur að þurfi til rekstrarins.

Eins og við vitum eru aldraðir á hjúkrunarheimilum veikari í dag en þeir voru fyrir nokkrum árum. Málaflokkurinn er að þyngjast. Þörfin fyrir aukna mönnun og aukið vægi fagmenntunar hefur aukist og er það í takt við kröfurnar sem gerðar eru til starfseminnar. Það er í sáttmála ríkisstjórnarinnar að bæta rekstrarumhverfi hjúkrunarheimila. Gerður var nýr samningur nú í vikunni, var verið að uppfæra greiðslurnar. En þar er ekki gengið að fullu að þessum viðmiðum eins og þau eru, en ég vona að svo verði. Ég hvet heilbrigðis- og fjármálaráðherra til þess að standa við þessi stóru orð og reka þetta með sóma.