148. löggjafarþing — 70. fundur,  7. júní 2018.

verðtrygging fjárskuldbindinga.

[11:29]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Virðulegi forseti. Þetta er alltaf mjög áhugaverð umræða. Ég þakka hv. málshefjanda fyrir hana. Mér finnst hins vegar alltaf grundvallarvandamálið vera: Tölum um háa vexti á Íslandi. Verðtrygging er ein myndbirting hárra vaxta. Verðtryggingin hefur verið tæki okkar til að ráða við hátt vaxtastig í landinu en það er allt of lítið talað um af hverju við búum við svona hátt vaxtastig. Þessari umræðu er algjörlega drepið á dreif með gagnrýninni á verðtrygginguna sjálfa. Ég er ekki aðdáandi verðtryggingar. Mér þykir hún ógagnsætt, óskilvirkt fyrirkomulag en ég skil af hverju við höfum stuðst við hana eins og hækju á undanförum árum, einfaldlega út af óstöðugleika krónunnar og gríðarlega hás vaxtastigs.

Ég fagna sérstaklega útkomu nýrrar skýrslu um valkosti okkar í peningastjórn. Ef ég mætti gera eina tillögu á þingi held ég að það ætti að prófa þingmenn upp úr þeirri bók í haust. Ég held að það væri mjög gagnlegt fyrir okkur öll að lesa þá harmsögu sem peningastjórn okkar er í gegnum áratugina, í raun allan fullveldistímann. Þar er bent á þau atriði sem við ættum að taka hvað mest til okkar. Veigamesta ábendingin er að það skiptir engu máli hvaða fyrirkomulag við höfum á þessum málum hér á landi ef við viljum ekki spila eftir þeim leikreglum sem það fyrirkomulag krefst. Þar er ekki hvað síst mikilvægt að stjórnmálin líti í eigin barm og átti sig á því að ríkisfjármálin spila t.d. mjög stóra rullu í hvaða peningastjórn sem er. Hér erum við væntanlega að fara að ræða ríkisfjármálaáætlun á eftir sem þverbrýtur einmitt þær sömu leikreglur.

Enn hefur okkur ekki lærst að fara eftir (Forseti hringir.) þeim leikreglum sem við höfum þó sjálf sett okkur. Það er grunnurinn að þeim vanda sem við erum að glíma við. Síðan getum við tekist á við umræðuna um krónuna og hvort hún sé ákjósanlegur framtíðargjaldmiðill eða ekki. En það skiptir engu máli hvaða tæki við veljum okkur í þessum efnum ef við sjálf kjósum ekki að spila eftir þeim leikreglum sem því fylgir.