149. löggjafarþing — 3. fundur,  13. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[11:48]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef kallað eftir því í þessum sal þau ár sem ég hef verið á þingi að umræðan um hagræn gildi ferðaþjónustu verði dýpkuð, um það hvernig hlutirnir koma og hvað það gefur þjóðinni. Væntanlega er skattheimta ríkisins og skatttekjur ríkisins í dag 60–70 milljarðar, jafnvel 80 milljarðar. Ætli það séu ekki 7–9% af tekjum ríkisins í dag sem koma úr þessari atvinnugrein. Það verður að dýpka þá umræðu sem hefur verið reynt að taka margoft um það hvernig þessar gjaldeyristekjur koma fram. 35–40% af þeim koma í gegnum flugreksturinn, sem er ekki með virðisauka, en það er stóri skatturinn í því samhengi. Síðan er 1/3 af atvinnuveginum í efra þrepi virðisaukans og um þriðjungur í neðra þrepinu.

Neðri þrepin — þetta er ekkert undanþága. Við erum á sama stað og almennt í Evrópu. Við erum á nákvæmlega sama stað. Í Evrópu er neðra þrep 7–12%. Þannig liggur það yfir Evrópu. Við erum með 11% skatt. Það er einungis að mig minnir Rúmenía og Danmörk sem eru í efra þrepinu. Við þekkjum það að danska ríkið niðurgreiðir ráðstefnuhald í Danmörku vegna þess að það er engin samkeppnishæfni til staðar þar varðandi þá þætti.

Ég kalla eftir því að menn hætti að tala um skattaívilnanir, undanþágur og slíka þætti. Við erum í samkeppnisrekstri við aðrar þjóðir. Hvað haldið þið að hefði gerst ef við værum í þessari stöðu og menn hefðu t.d. hækkað virðisaukann á gistingu og það kæmi fram þessa mánuðina ofan á allt annað sem er í gangi innan ferðaþjónustunnar? Mér leiðist þetta tal eins og það kemur endalaust fram í þingsal, ár eftir ár. Það er eins og menn séu ekki að hlusta á það sem er að gerast í landinu í atvinnurekstri sem (Forseti hringir.) snýr að ferðaþjónustunni.