149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[15:42]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Það er rétt sem fram kom hjá hv. þingmanni að það er tvennt sem haft hefur veruleg áhrif á póstþjónustu síðustu ára. Það er auðvitað sú staðreynd að menn virðast smátt og smátt vera að hverfa frá því að nota bréf og færa sig yfir í rafrænar sendingar eða jafnvel að senda ekki jólakort, eins og við þekkjum. Það er svo mikil fækkun að menn hafa brugðist við með því að fækka lögboðnum dögum til þess að bera út póst og erum við nú komin niður í tvo daga, ekki bara á landsbyggðinni heldur alls staðar á Íslandi, það er sama kerfi alls staðar.

Hins vegar er Íslandspóstur með þær kvaðir á sér að hann á að sinna því líka í dreifbýli þar sem það er kannski ekki mjög gefandi að keyra út eitt bréf einstaka sinnum eða þá að keyra út dagblöð tvisvar í viku. Það er ekki gaman að lesa þau. Hin ástæðan fyrir þessu er einmitt það sem hv. þingmaður kom inn á, að póstþjónusta hefur í sífellt meira mæli verið að breytast yfir í bögglapóst, pakkapóst og eru það þá gjarnan pakkar úr einhverri vefverslun, oft er nefnd ein stór í Kína, AliExpress, sem sendir mikið af vörum til Vesturlanda. En í alþjóðapóstkerfinu er það þannig að það gildir alþjóðleg gjaldskrá sem gerir það að verkum að þessar sendingar standa ekki undir sér. Vesturlönd eru einfaldlega í minni hluta í þessu efni. Ég veit að menn vilja taka á þeirri stöðu. Hvort þeim verður ágengt skal ég ekki fullyrða, en menn eru að leita leiða.

Hér á Vesturlöndum hafa menn líka verið að leita leiða til þess að tryggja að þessar sendingar standi undir sér því að það er með öllu óskiljanlegt og ekki hæft að mínu viti að íslenskir skattgreiðendur séu að niðurgreiða erlenda vefverslun með því að greiða peninga til Íslandspósts til þess að standa undir óarðbærum (Forseti hringir.) sendingum frá erlendum framleiðendum sem eru í samkeppni við íslenska verslun.