149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[17:30]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (Flf):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra yfirferð hans um málaflokkinn eins og hann blasir við í hinu fjármálalega tilliti.

Mig langar að leggja fyrir nokkrar spurningar til ráðherra. Ég vil í fyrsta lagi spyrja í tengslum við viðskiptaþvinganir gagnvart Rússlandi hvort ráðuneyti utanríkismála hafi borið sérstakan kostnað vegna þátttöku landsins í þessum aðgerðum og hvort þess sjái stað í fjárlagafrumvarpinu.

Ég vil jafnframt spyrja ráðherra um framlög til þróunarsamvinnu. Í fylgiriti með fjárlagafrumvarpi kemur fram að gert er ráð fyrir að framlög til þróunarsamvinnu verði sem næst 6 milljarðar á næsta ári borið saman við sem næst hálfum sjötta milljarði, 5,5 milljörðum, á yfirstandandi ári. Hækkunin milli ára nemur samkvæmt þessu nálægt hálfum milljarði kr. Ég spyr ráðherra: Hvaða markmiðssetning liggur að baki þessum tölum og hvaða mælikvörðum um árangur er beitt þegar kemur að ákvörðunum í þessum efnum? Hvaða kröfur gerir ráðherra til árangurs af þessu starfi?

Ég vil í þessu sambandi spyrja hvort ráðherra geti upplýst um hvað almennt gerist meðal nágrannaþjóða þegar kemur að spurningunni um hvort reikna eigi kostnað vegna hælisleitenda með útgjöldum til þróunarsamvinnu, einnig í alþjóðlegum samanburði.

Loks vil ég spyrja um Háskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi og vildi gjarnan heyra frá ráðherra um árangur og aðkomu ráðuneytisins að málefnum hans. (Forseti hringir.) Hver er framtíðarsýn ráðherra um þetta starf sem ýmsir hafa borið lof á?