149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[19:44]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Ég fagna því ef minnka á þessar krónu á móti krónu skerðingar þó að ég telji að afnema eigi þær alveg. Það er kannski aðeins dýrari pakki. En í kafla um fæðingarorlof er eitt markmið og ein aðgerð sem snýr að því að draga úr röskun á tekjuinnkomu foreldra í fæðingarorlofi með því að hækka hámarksgreiðslur í 600.000 kr. á mánuði. Þetta er fín aðgerð sem mun vonandi gera fleirum kleift að verja mikilvægum tíma með nýfæddum börnum sínum.

Nú búum við yfir þekkingu um hversu mikilvægt það er fyrir þroska barna að verja miklum tíma með foreldrum sínum á fyrstu árum og er því brýnt að fara í aðgerðir til að lengja fæðingarorlofið og þá sérstaklega með það í huga að börn einstæðra foreldra fái einnig að njóta þeirrar lengingar, þ.e. að jafnræðis sé gætt á milli þeirra barna sem hafa báða foreldra og þeirra sem hafa eitt foreldri. Einstæðir foreldrar eru oft þeir sem þurfa á mestri aðstoð að halda. Er þetta eitthvað sem ráðherra hyggst taka til greina í þeirri vinnu sem er fram undan við lengingu fæðingarorlofs? Hvenær má búast við frumvarpi þess efnis?

Í kafla um húsnæðismál virðist ráðherra setja mestan þunga í að aðstoða fólk við kaup á húsnæði á meðan viðkvæmasti hópur samfélagsins er sá sem ekki getur keypt sér og sér ekki fram á að geta nokkurn tímann keypt sér þar sem leigukostnaður étur upp meginþorra ráðstöfunartekna. Hvað, ef eitthvað, hyggst ráðherra gera fyrir fólk á leigumarkaðnum?

Svo undra ég mig aðeins á forgangsröðun í málefnum aldraðra þar sem tvær af sex aðgerðum snúa að því að fá sem flesta aldraða á vinnumarkaðinn. Ég spyr því: Á hvaða tímapunkti, þegar fólk er búið að strita og erfiða í 50 ár eða meira, má fólk fara að hægja á sér og sinna áhugamálum sínum í friði fyrir hvatningarherferðum yfirvalda til að halda áfram að strita? Mér þykir þetta furðuleg forgangsröðun.

Í lokin: Felur aðgerð ráðherra til að tækla launajafnrétti kynjanna í sér að lyfta kvennastéttum upp úr láglaunafeninu? Það er ljóst að jafnlaunavottun mun ekki koma því til leiðar.