149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[22:39]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (Flf):

Herra forseti. Skýrt hefur komið í ljós á undanförnum vikum að forsendur fjárlagafrumvarpsins geta orðið úreltar skjótar en hendi væri veifað. Til marks um þetta eru hreyfingar á gengi krónunnar og blikur á lofti í ferðaþjónustunni sem nú gegnir lykilhlutverki í hinu nýja íslenska efnahagslífi. Báðir þættirnir sem ég gat um geta skekið undirstöður frumvarpsins.

Ég get tekið undir þá stefnu að búa í haginn fyrir framtíðina undir formerkjum sjálfbærni í ríkisfjármálum með því að lækka skuldir og greiða inn á lífeyrisskuldbindingar gagnvart opinberum starfsmönnum. Ég get hins vegar ekki tekið undir þá forgangsröðun sem í frumvarpinu felst. Mestu skiptir í því sambandi að með frumvarpinu er ekki gripið það tækifæri sem nú gefst til að rétta hlut þeirra sem höllum fæti standa í íslensku samfélagi. Svo að dæmi sé tekið heldur ríkisstjórnin sig enn við þann leista að aftra bótaþegum að bæta hag sinn með aukinni vinnu.

Fjármálaráðherra og ráðuneyti hans hafa haldið fram ýmsum tölum um kostnað við afnám frítekjumarksins, að þetta kosti 1 milljarð, 2 eða 3 eftir því hvernig vindar blása á þeim bæ. Ekki er borið við að sýna neina útreikninga en vitað er að ekki er tekið tillit til skatttekna af auknum tekjum skattgreiðenda. Til grundvallar frumvarpi Flokks fólksins liggur vönduð greinargerð viðurkennds fræðimanns þar sem tekið er tillit til þessara þátta og niðurstaða hans er að afnám frítekjumarksins kosti ríkissjóð ekki neitt. Ekki krónu, herra forseti.

Ég get heldur ekki tekið undir áherslur ríkisstjórnarinnar í skattamálum. Stórfelld lækkun bankaskatts með fingraförum Vinstri grænna, svo að notað sé orðalag hv. formanns þingflokks þess ágæta flokks hér í kvöld, kemur á óvart svo að ekki sé meira sagt. Við í Flokki fólksins viljum beita stiglækkandi persónuafslætti til að geta hækkað skattleysismörk gagnvart þeim sem lægstar tekjur hafa. Við munum leggja fram frumvarp þessa efnis sem nú bíður lokafrágangs sem verður meðal forgangsmála flokksins. Ég fagna ákvörðun um hækkun framlags til barnabóta og vaxtabóta en það mun reynast haldlítið ef óraunhæf viðmið um eignir standa í vegi fyrir því að fjölskyldur sem þurfa á vaxtabótum að halda fái notið þeirra. Hæstv. ráðherra hlýtur að huga vel að þessu atriði ef hann er áhugasamur um að fé þetta nýtist sem skyldi sem ég dreg ekki í efa.

Fyrir dyrum standa kjarasamningar. Ég tel umfram allt að niðurstaða þeirra megi ekki verða á þá lund að hér fari af stað ný verðbólguhrina. Hún myndi skaða mest þá sem lægstar hafa tekjurnar og standa að öðru leyti höllustum fæti. Fyrir flestar fjölskyldur með lán til að fjármagna húsnæði yrði slík þróun mjög skaðvænleg. Mikið vatn á eftir að falla til sjávar áður frá kjarasamningum verður gengið. Kannski er það svo að nýlegir atburðir, sem ég gat um í upphafi, auki þrýsting á að kjarasamningarnir skaði ekki það sem áunnist hefur í auknum kaupmætti undanfarin misseri og leiði ekki af sér skriðu verðhækkana, enda hafa engar varnir verið reistar í þágu heimilanna gagnvart áhrifum verðbólgu á verðtryggð íbúðalán. Kannski liggur lausnin í fjölþættum aðgerðum sem koma tekjulágu fólki og bótaþegum helst til góða, átaki í húsnæðismálum sem ég tel eftir samtöl við verkalýðsforingja að verkalýðshreyfingin sé mjög áfram um, aðgerðum gagnvart ofurvöxtum og verðtryggingu og þar fram eftir götunum. Kannski skapa kjarasamningarnir — og það væri óskandi — tækifæri til að leggja grunn að nýju jafnvægi þar sem hlutur þeirra sem minnst hafa verði réttur; jafnvægi sem byggja má á frekari sókn til bættra lífskjara í landinu, lífskjara sem allir njóta en ekki bara sumir meðan aðrir eru gleymdir.

Umræðurnar hafa leitt ýmislegt í ljós og ég tek undir orð þeirra sem hér hafa sagt að þær hafi verið málefnalegar, upplýsandi og gagnlegar. Ég ætla að víkja að nokkrum þáttum í örstuttu máli. Varðandi þjóðarsjóð, sem teflt er fram hér af hálfu ríkisstjórnarinnar, er alls óljóst hvernig honum verður beitt. Það fæst með engu móti upplýst hverjir gætu notið fjár úr sjóðnum. Allt er óljóst um stjórn sjóðsins, ég vona að mér hafi misheyrst þegar mér heyrðist ráðherra tala um að aðilar sem ekki hefðu lýðræðislegt umboð ættu að fara með málefni hans. Varðandi þennan sjóð er allt um tengsl hans við ríkissjóð á huldu.

Við kynningu á þessum sjóðum hefur verið talað um hjúkrunarheimili og rannsóknir. Þetta er nánast vandræðalegt, herra forseti. Þessa þætti í okkar þjóðlífi á að fjármagna eftir mörkuðum leiðum varðandi hjúkrunarheimilin um farveg Framkvæmdasjóðs aldraðra, ríkissjóð og þar fram eftir götunum. Hið sama á við um rannsóknir og vekja þessir þættir þá spurningu hvort þeir séu nefndir í fegrunarskyni og sem sölupunktar um hugmynd sem sýnist ómótuð miðað við hve litlar upplýsingar fást um svo stórt mál en virðist samt mikið áhugamál á sumum bæjum.

Það er hins vegar jákvætt að fá fram það viðhorf ráðherra að fé sem kynni að safnast vegna arðgreiðslna af raforkuauðlindum og e.t.v. öðrum auðlindum verði ávaxtað utan landsteinanna og ýti með því ekki undir verðbólu á eignamarkaði eins og nýleg dæmi eru um.

Varðandi kolefnisgjaldið hefur verið leitt í ljós, með svari umhverfis- og auðlindaráðherra við fyrirspurn frá þeim sem hér stendur, að stjórnvöld reka í því efni stefnu sem þau hafa ekki hugmynd um hvaða áhrif hefur og verður að telja þetta umhugsunarefni, svo að ekki sé meira sagt, að þessari skattlagningu sé haldið til streitu og með þeim áhrifum sem hún hefur, m.a. á verðlag í landinu og þar á meðal á hina illræmdu vísitölu neysluverðs sem allir þekkja.

Varðandi varasjóð vekja ummæli fjármálaráðherra um það efni í umræðum í gær nokkra undrun. Þau voru á þá leið, ef rétt var tekið eftir, að hann teldi enn kost á að fjármagna framkvæmdir í samgöngumálum, sem út af fyrir sig eru góðar og brýnar, með því að sækja fé í varasjóðinn. Fyrir fram hefði mátt búast við að ráðherra hefði séð að sér um slíka beitingu varasjóðsins til verkefna sem bersýnilega fullnægja ekki kröfum 24. gr. laga um opinber fjármál, þar á meðal um ófyrirsjáanleika, og sem að réttu lagi ættu að vera fjármagnaðar með ákvörðunum í fjárlögum og fjármálaáætlun.

Ég vil geta húsnæðisliðarins því að hann kom upp hér í samtali þingmanna og ráðherra í gær. Í ljósi hins takmarkaða áhuga sem virtist mega greina hjá ráðherra um ábendingar um að húsnæðisliður vísitölunnar, svo sérkennilega fráleitur sem hann er, hefði bakað ríkissjóði stórfelld útgjöld, verður ekki hjá því komist að inna ráðherra eftir skriflegu svari um þennan kostnað. Má þá öllum vera ljóst hvað þessi húsnæðisliður hefur kostað skattgreiðendur, rétt eins og við vitum nú hvað hann hefur kostað heimilin vegna íbúðakaupa; og þakka ég svar hans, nota þetta tækifæri, við fyrirspurn minni um það efni.