149. löggjafarþing — 7. fundur,  19. sept. 2018.

mannanöfn.

9. mál
[16:42]
Horfa

Brynjar Níelsson (S):

Hæstv. forseti. Ég kem hérna bara upp af því að mér leiðist. [Hlátur í þingsal.] (Gripið fram í.) Mér finnst alveg ótrúlegt að hlusta á meira að segja Framsóknarmenn orðna frjálslynda. Ég ætla að vera íhaldsmaður. (Gripið fram í: Þú ert það.) Já, en stundum er ég sakaður um of mikið frjálslyndi. Svo hlustar maður hér á fólk tala um frjálslyndi og forræðishyggju, þetta sama fólk vill ekki einu sinni leyfa mér að kaupa áfengi nema af ríkisstarfsmanni. Það vill ekki leyfa mér að hlusta á annað en ríkisútvarp og talar svo um frjálslyndi í þessu. (Gripið fram í.) Það er eitthvað öfugsnúið við þessa umræðu

Ég held að þetta snúist ekkert um frelsi eða forræðishyggju, bara alls ekkert. Við erum alltaf að takmarka frelsi einstaklingsins, alls staðar, við leyfum okkur ekki einu sinni að ráða hvernig húsið er í laginu sem maður byggir, hvaða starfsemi er í því hverju sinni o.s.frv. Við erum alltaf að þessu. Þetta snýst ekkert um frelsi eða forræðishyggju. Í mínum huga snýst þetta nefnilega svolítið um menningararfleifð og menninguna. Það var athyglisvert að heyra hv. þm. Guðmund Andra Thorsson segja áðan að engin lög gætu látið íslenska menningu lifa. Af hverju erum við með lög um minjavernd? Af hverju erum við með lög um Þjóðminjasafn? Af hverju erum við með lög um hitt og þetta? Hvað erum við að safna þessu drasli saman í Þjóðminjasafninu sem menn eru löngu hættir að nota? [Hlátur í þingsal.] Og segja bara: Heyrðu, hvaða máli skiptir það? Það er bara nýtt samfélag. Það er allt annað líf núna. Þetta er ryðgað drasl. [Hlátur í þingsal.] Ég vil samt hafa þjóðminjasafn og ég vil hafa minjavernd, lög um fornleifar og lög um þetta allt saman. [Hlátur í þingsal.] Það eru lög um að friða hús hjá fólki, það ræður ekki hvernig það nýtir eigin eign. Svo kemur hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson og segir: Ja, þetta er bara frelsi. (Gripið fram í: Grundvallar.) Grundvallarfrelsi. Að ráða þessu? Ég held að þetta hafi bara ekkert með frelsi að gera, fyrir utan að það verða endalaus praktísk vandamál í kringum þetta. Við erum einn daginn að tala um að allir séu einhvern veginn kynlausir, það má ekki vera neitt kyn, og svo er allt í einu komið hérna kynhlutverk og menn breyta um kyn og eru komnir í annað hlutverk. Við erum alltaf að mæla kynjahalla úti um allt en samt eigum við að vera kynlaus og heita alls konar nöfnum og enginn veit neitt. Ég held að það verði alveg ótrúlegt vandamál og útreikningar fyrir femínistana að reikna allan þennan halla.

Ég held að það sé ekkert gagn að þessu frumvarpi, að það sé alger óþarfi. Ég ætla að nota setninguna frá hv. þm. Guðmundi Andra Thorssyni: Er þetta atlaga að grunngerð samfélagsins? [Hlátur í þingsal.] (GuðmT: Er það?) Mér heyrðist það, það getur verið tóm della. [Hlátur í þingsal.] Ég held að hv. þingmaður muni ekki alltaf hvað hann segir. [Hlátur í þingsal.] Eða þingmaðurinn sem er í stólnum. Kann að vera en ég upplifi þetta sem svolitla atlögu að grunngerð íslensks samfélags. Við myndum örugglega kalla það atlögu að grunngerð samfélagsins, menningunni eða menningararfleifðinni ef við ætluðum að gera eitthvað annað sem við teljum mikilvægt í okkar menningararfleifð. Ég er alveg viss um að þessir hv. þingmenn, Guðmundur Andri Thorsson, Helgi Hrafn Gunnarsson og fleiri, myndu rísa upp á afturfæturna — og ekki bara upp á afturfæturna ef ég legði til að við breyttum RÚV eða að við ættum að selja áfengi annars staðar en hjá ríkinu. Þá skiptir frelsið engu máli. En ef við ætlum að gefa börnunum einhver fáránleg nöfn, sem passa ekkert inn í okkar menningu, okkar sjálfsmynd, eitt eða neitt, er það voða mikið frelsi. Mér finnst það ekkert koma því við, fyrir utan öll vandamálin sem þessu munu fylgja. Við höfum séð í fjölmiðlum þegar mannanafnanefnd hafnar einhverjum fáránlegum nöfnum sem við vitum alveg fyrir fram að passa ekki að íslenskum málfarsreglum heldur eru algjörlega til þess fallin að gera líf viðkomandi erfitt sem barni og jafnvel alla ævina. En við því segir enginn neitt, við treystum bara fólki, en svo eru menn mjög uppteknir af því að setja alls konar reglur, reyna að passa upp á einelti og það má ganga mjög langt í að passa upp á það, en svo erum við raunverulega að búa til grundvöll fyrir slík vandamál. Við erum bara að fóðra slíkt vandamál, algjörlega að óþörfu. Það er ekki eins og það sé ekki úr nógum nöfnum að velja. Ég gæti skilið vandamálið ef það væri þannig að ríkisvaldið gæfi okkur ákveðið nafn. Þá skildi ég áhyggjur manna. En það er ekki eins og það sé, við getum valið úr Þorsteini og Guðmundi og öllu saman. Og Helga Hrafni. Ég á son sem heitir Helgi, ágætisnafn.

Við eigum að fara mjög varlega. Ég er ekki að segja að ekki megi hugsa um að rýmka þetta eitthvað og kannski ekki vera alveg svona föst í forminu. Við getum tekið þetta í einhverjum skrefum meðan meiningin og þetta er allt saman að þróast. Við þurfum ekki að henda því öllu út og leggja það niður, við getum bara trappað það niður. Hið sama á við um áfengi í búðir, við getum byrjað á að hafa frelsi í því að leyfa mönnum að selja það í sérverslunum áður en við hleypum því seinna í almennar búðir.

Þetta hefur a.m.k. ekki í mínum huga neitt með frelsi eða forræðishyggju að gera heldur má spyrja hvort þessi menningararfleifð skipti okkur einhverju máli. Erum við að skapa meiri vanda en við ætlum að leysa með þessu? Ég held að við séum að skapa miklu meiri vanda með þessu en við ætlum að leysa og ég held að menn geti alveg lifað með öll þessi nöfn sem eru í boði án þess að finnast að sér vegið.