149. löggjafarþing — 8. fundur,  20. sept. 2018.

sjúkratryggingar.

11. mál
[15:43]
Horfa

Flm. (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þingmaðurinn nefndi liðskiptagerðir í Svíþjóð í ræðu sinni áðan. Hann sagði reyndar að kostnaðurinn við þær væri þrefalt sá sem hann er á Íslandi. Það mun ekki vera alveg rétt hjá þingmanninum, en það er rétt hjá honum hann er umtalsvert hærri. (ÞorS: Hver er talan?)

Ráðherra hefur einmitt sagt að henni þyki þetta fáránleg meðferð á fjármunum og hefur sagt það ítrekað á opinberum vettvangi. Vonandi linnir þessu, en þingmaðurinn veit það ósköp vel, og nefndi það raunar í ræðu sinni, að einmitt vegna samningsins um Evrópska efnahagssvæðið hefur stofnast réttur hjá tilteknum hluta sjúklinga á Íslandi til að fara í aðgerðir sem gerðar eru á Evrópska efnahagssvæðinu. Það er þannig.

Ég veit að við gætum tekið langa umræðu um Evrópska efnahagssvæðið, ég og hv. þingmaður, en ég ætla ekki að fara út í það núna. En einmitt út af þessari staðreynd er búið að vera í gangi biðlistaátak þar sem í gildi eru samningar við þrjár stofnanir; Sjúkrahúsið á Akureyri, Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Akranesi og Landspítalann. Þar hafa menn unnið að því að vinna niður biðlistana á undangengnu ári og heldur það átak áfram.

Vonandi heldur átakið áfram á næstu misserum og vonandi náum við biðlistunum niður í það sem er viðunandi. Ég deili skoðunum hv. þingmanns á því að það er afar mikilvægt. Varðandi kostnaðinn sem hlýst af einni bæklunaraðgerð er kostnaðurinn af henni miklu flóknari en bara kostnaðurinn í kringum aðgerðina sjálfa. Það eru miklu fleiri þættir sem koma þar inn, en ég hef ekki tíma, frú forseti, til að fara yfir það.