149. löggjafarþing — 12. fundur,  27. sept. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[17:33]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni áheyrnina sem hann veitir mér akkúrat núna og einnig ræðuna áðan. Mér finnst gott að geta rætt hér þær hugmyndir sem við höfum um fyrirkomulag þessara mála þegar kemur að veiðigjöldum, hvernig á að innheimta fé fyrir afnot af sameiginlegri auðlind þjóðarinnar. Þess vegna nýti ég tækifærið til að ræða það við hann.

Hv. þingmaður segir að þetta sé ekki líklegt til sátta og vísar svo í frumvarp Viðreisnar um uppboðs- og markaðsleið. Mér finnst þetta pínulítið lykta af því að menn telji sína leið vera réttu sáttaleiðina. Hér er farin sú leið að horfa tíu ár aftur í tímann og finna meðaltal þar sem fjórar ríkisstjórnir hafa setið, þar með talin ríkisstjórn sem Viðreisn, flokkur hv. þingmanns, sat í. Hv. þingmaður vill ekki tala um tölur en ef þetta kerfi hefði verið við lýði í fyrra hefðu veiðigjöldin verið rúmum 3 milljörðum hærri en þau voru.

En við skulum ekki festa okkur í tölum. Ég dett oft í þá gryfju, virðulegur forseti, þegar ég er að tala um mínar hugmyndir að mér finnst eitthvað vera einhvern veginn og svo segi ég eitthvað og ætlast til að fólk skilji það. Mig langar að skilja hvernig hv. þingmaður og Viðreisn ætla að ná þessu markaðsverði sem hv. þingmönnum flokksins verður tíðrætt um. Hvernig gerum við það núna aftur? Hér er búið að tala um að veiðigjöldin renni út um áramótin, en hvernig föngum við þetta markaðsverð sem hv. þingmönnum verður tíðrætt um, að markaðurinn muni finna rétta verðið? Ég átti samtal við hv. þm. Hönnu Katrínu Friðriksson um hvort við værum að fara að bjóða upp hluta af heimildum. Er verðið sem þar fæst rétta verðið? Hvaða girðingar eru? Ég spyr af því að ég veit að hv. þingmaður veit örugglega meira um markaðinn en ég. Ég er að spyrja af raunverulegri (Forseti hringir.) forvitni: Hvernig föngum við þetta markaðsverð?